132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna er það frumvarp sem hér liggur fyrir frá hæstv. fjármálaráðherra út af fyrir sig ekki umdeilt mál þó að auðvitað sé eðlilegt að gera við það athugasemdir að hæstv. ráðherra komi með frumvörp inn á þessum tíma og þær athugasemdir sem gerðar voru í upphafi fundar eiga auðvitað vel við. Það eru sannarlega einkennileg vinnubrögð í þinginu að veita þurfi afbrigði fyrir nýjum málum, nýjum stjórnarfrumvörpum inn á dagskrána í upphafi maímánaðar, 2. maí, þegar gert er ráð fyrir að ljúka þingstörfum að tveimur dögum liðnum samkvæmt starfsáætlun þingsins. Hæstv. fjármálaráðherra er ekki einn um það og ekki ástæða til að draga hann sérstaklega út í þeirri gagnrýni. Þetta er einhver lenska sem hefur þróast hér og mér sýnist ágerast eftir því sem ég sit fleiri þing því að ég minnist þess ekki að svo slæmt hafi þetta verið síðustu tvö árin, með fyrirvara þó.

Það mál sem hér er flutt er auðvitað fyrst og fremst flutt til að mæta því ástandi sem er vegna þeirra sveiflna sem hafa verið á íslensku krónunni og gengi hennar. Hér hefur það réttilega verið tilfært að þær sveiflur eru ekki íslensku krónunni að kenna einni og sér heldur auðvitað fyrst og fremst hagstjórninni. Það er þó óhjákvæmilegt að ræða og taka til umfjöllunar um leið krónuna og stöðu hennar vegna þessara sveiflna og vegna þess hvaða ályktanir við þurfum að draga af því sem hér hefur verið að gerast á síðustu mánuðum og missirum í efnahagsmálum. Það er algerlega knýjandi umræða vegna þess að það er fátt brýnna en að við drögum þær ályktanir af þeirri þróun sem geta dugað til að skila okkur inn í ásættanlegan efnahagslegan stöðugleika og aðstæður almennt fyrir heimili og atvinnulífið í landinu sem búandi sé við. Ég verð að segja að þær aðstæður sem heimilunum og atvinnulífinu eru búnar núna eru ekki boðlegar og þó að menn hafi lengi getað skákað í því skjólinu að þetta væri svo sem skárra en var hér á verðbólguárunum þá er það auðvitað algerlega óþolandi til lengdar að búa við viðvarandi verðbólgu umfram það sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar, að búa við þessar miklu sveiflur í genginu og búa við einhverja hæstu vexti í heimi. Þegar þetta fer saman eru það einfaldlega óþolandi almenn skilyrði bæði fyrir atvinnulíf og heimilin í landinu. Það er auðvitað hægt að mæta þeim með því að setja plástra eins og þetta litla frumvarp og hefur svo sem verið gert í öðrum löndum, við erum ekki einsdæmi um það. En fyrst og fremst hljótum við að ræða það á þessum vettvangi, hinu háa Alþingi, með hvaða hætti við mætum og drögum úr þessum sveiflum með skynsamlegum hætti til lengri tíma. Ég vil því nota tækifærið, vegna þess að sú tillaga sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vísaði til, þingsályktunartillaga sem legið hefur fyrir mánuðum saman og fæst ekki rædd fyrir þinglok, að hvetja til þess að hæstv. fjármálaráðherra taki þátt í umræðunni aftur og fjalli nokkuð um sína sýn á ekki síst íslensku krónuna, og kannski ekki síst í ljósi þeirra skrifa sem við höfum nýverið séð frá aðalhagfræðingi Seðlabankans, því að ég fæ ekki betur séð af þeim lestri en að þar sé því nánast haldið fram að ekki geti farið saman stöðugleiki í efnahagsmálum annars vegar og íslenska flotkrónan hins vegar, a.m.k. séu meiri líkur en minni á því að við búum við sveiflur með íslensku flotmyntinni heldur en ekki. Hvernig við getum komist út úr þessum sveiflum og skapað stöðugleika til langframa og aðstæður fyrir heimili og fyrirtæki til áætlanagerðar á auðvitað að vera meginviðfangsefni efnahagsumræðunnar.

Hæstv. fjármálaráðherra vísaði réttilega til þess að auðvitað sveiflast aðrar myntir líka. En það sem skiptir máli er hvernig þær sveiflast við viðskiptalöndin og ef við höfum sama gjaldmiðil í landinu og í helstu viðskiptalöndum okkar þá varðar okkur mun minna um sveiflurnar. Þannig verða Bandaríkjamenn ekki tilfinnanlega varir við sveiflur á dollara í innanlandsviðskiptum sínum því að Bandaríkin eru auðvitað svo stórt upptökusvæði.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, virðulegur forseti, að grundvallaratriði þess að skapa hér til framtíðar trúverðugleika fyrir íslenskt fjármálakerfi, að skapa til framtíðar stöðugleika í íslensku efnahagslífi og skapa íslenskum heimilum og atvinnulífi verðbólgu- og vaxtastig sem ekki er hið hæsta í heimi, er að við tökum til alvarlegrar umfjöllunar að leggja af íslensku krónuna og að ganga inn í myntsvæði evrunnar og þar með auðvitað Evrópusambandið líka, a.m.k. til lengri tíma, eins og raunar er stefna flokks míns, Samfylkingarinnar, að láta reyna á aðildarumsókn.

Ég held að sú þróun sem við höfum verið að sjá og þær viðvaranir sem við höfum fengið frá erlendum fjármálafyrirtækjum og fjármálastofnunum á undanförnum vikum og mánuðum séu með þeim hætti að þó að við höfum fulla trú á íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi þá sé afar brýnt að stjórnvöld á Íslandi hugi sérlega vel og gaumgæfilega að því með hvaða hætti við getum aukið trúverðugleika á hagkerfi okkar gagnvart hinu alþjóðlega fjármálaumhverfi, aukið trúverðugleika íslensks atvinnulífs og eflt það og styrkt í útflutningi og þeirri útrás sem það er í. Ég hygg að því neiti enginn að það að hafa í þessu hagkerfi gjaldmiðil sem er viðurkenndur og þekktur í veröldinni, eins og til að mynda evruna, gæti orðið eitthvert mikilvægasta framlagið til þess að efla og styrkja trúverðugleika íslensks hagkerfis og íslensks fjármálalífs, því að það er auðvitað til þess fallið að vekja spurningar um það hagkerfi og það atvinnulíf sem hér er að við rekum einhvers konar tilraunastarfsemi með minnsta myntsvæði í heimi í fljótandi gengi og við höfum, ekki bara á síðustu mánuðum heldur fyrir fimm árum trúlega, séð sveiflur í því gengi sem eru ótrúlega miklar og fyrir fimm árum síðan séð í kjölfar þess verðbólgu sem ég hygg að hafi verið um 9%, og þætti auðvitað algerlega óþolandi ástand í nágrannalöndum okkar, og verðbólgubál en það ástand köllum við í íslensku samfélagi „mjúka lendingu“ vegna þess að þegar sveiflur, hagstjórn, verðbólga og vextir eru annars vegar erum við einfaldlega svo vondu vön, virðulegur forseti.

Ég vísaði áðan til greinar aðalhagfræðings Seðlabankans í Fréttablaðinu á dögunum og þar hafa líka birst greinar eftir fyrrverandi aðstoðarmann fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, Illuga Gunnarsson. Eitt af því sem þar hefur verið rætt og er auðvitað líka til marks um óstöðugleikann eru hinir geysiháu stýrivextir sem Seðlabankinn beitir nú og fara hækkandi og eru komnir fram úr þeim spám sem hæstv. fjármálaráðherra var með við fjárlagaumræðuna fyrir yfirstandandi ár og hafði að forsendum fjárlaga. Ekki er útlit fyrir að þeir vextir fari lækkandi og þó að ómögulegt sé að spá fyrir um það hvort þeir hækki frá því sem þegar er orðið þá eru þeir klárlega komnir fram úr því sem hæstv. fjármálaráðherra ætlaði og eru eitt af dæmunum um þær aðstæður sem við búum við hér á landi, einhverja hæstu stýrivexti sem við þekkjum í Vestur-Evrópu um þessar mundir.

Um það er deilt, m.a. í nefndri ritdeilu, hvort þessar stýrivaxtahækkanir hafi yfir höfuð tilætluð áhrif. Hvers vegna er það? Það er annað sérstakt umfjöllunarefni. Það er vegna þess að við erum ekki bara með minnsta fljótandi gjaldmiðil í heimi hér á landi, íslensku krónuna, heldur erum við með tvo minnstu fljótandi gjaldmiðla í heimi vegna þess að helmingurinn af íslensku krónunni er verðtryggð íslensk króna en hinn helmingurinn óverðtryggð. Nú eru hlutföllin, helmingur og helmingur, ekki nauðsynlega rétt en við höfum annars vegar íslensku krónuna verðtryggða og hins vegar óverðtryggða. Nefndur Illugi Gunnarsson og fleiri hafa bent ágætlega á það að hækkanir stýrivaxta eru sannarlega ekki, a.m.k. ekki til skamms tíma, að hafa nein áhrif á hina verðtryggðu íslensku krónu. Seðlabankinn á þess vegna um margt jafnvel enn erfiðara en seðlabankar annarra landa við að beita stýrivöxtunum til að hafa stjórn á þróun peningamála. Nýverið hefur forstjóri eins af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins, ef ekki hins stærsta, lýst því yfir á opinberum vettvangi að við Íslendingar eigum fyrst og fremst tveggja kosta völ í þessum efnum, þ.e. annaðhvort að halda í krónuna og hverfa þá frá verðtryggingunni til að freista þess að ná því að stýra sveiflum hennar betur eða að taka upp annan gjaldmiðil eins og evruna.

Nú hefur þegar komið fram í máli mínu að sjálfur hef ég sannfæringu fyrir því að hið síðara sé óhjákvæmilega það skref sem við stígum. Ég hygg að það sjái hver maður í hendi sér að veröldin mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki skiptast upp í fjögur meginmyntsvæði, japanska jenið, bandaríska dollarann, evruna og íslensku krónuna. Ég hygg að það sjái hver maður að í Evrópu er smátt og smátt að verða samrunaþróun á mörkuðum og á myntkerfum í eitt öflugt myntsvæði. Við Íslendingar eigum mest viðskipti okkar við það svæði og þess vegna er augljóst að íslenska krónan er við þær aðstæður veruleg viðskiptahindrun, bæði fyrir fyrirtæki okkar í viðskiptum við meginlandið og eins fyrir fyrirtæki á meginlandinu til að koma inn á okkar litla markað og veita þeim fáu fyrirtækjum sem við höfum, oft tveimur fyrirtækjum í hverri atvinnugrein eins og við þekkjum, stundum kallað íslenska tvíokunin, samkeppni á hinum innlenda markaði. Ég held að það sé alveg afdráttarlaust til lengri tíma að ef við ætlum að búa almenningi á Íslandi og fyrirtækjum á Íslandi bestu skilyrði til vaxtar og viðgangs þá þurfum við að fella niður þessa viðskiptahindrun. Við þurfum að skapa íslensku atvinnulífi og heimilunum í landinu sambærileg skilyrði við það sem er á meginlandinu vegna þess að ungu kynslóðirnar sem nú eru að vaxa úr grasi, vel menntaðar, eiga einfaldlega völ á milli þess að búa hér eða á meginlandinu. Í hverri könnuninni á fætur annarri sem við höfum séð meðal ungs fólks þá hefur það m.a. í áætlunum sínum að búa erlendis og það þekkir þau kjör og auðvitað gerir það í vaxandi mæli kröfur til þess að njóta þeirra kjara, enda verður ekki við það unað til langframa fyrir heimilin í landinu, ekki síst ungu barnafjölskyldurnar, að búa við hærri verðbólgu og mun hærri vexti en við þekkjum í löndunum í kringum okkur.

Til þess að hreyfa nokkuð þessari umræðu hef ég því tekið þann kostinn að ræða um þessa sveiflu undir frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra, sem lýtur að sveiflum og gengi, líka vegna þess að ég held að það væri gott og gagnlegt fyrir okkur á Alþingi að heyra sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra um þessi efni og kannski ekki síst um þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið út á undanförnum dögum og vikum, m.a. af aðalhagfræðingi Seðlabankans, forstjóra KB-banka og ýmsum öðrum aðilum sem hafa verið að tjá sig í þessari umræðu þar sem kallað er eftir því með hvaða hætti við getum aukið og eflt stöðugleika til framtíðar.