132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:59]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars sem gefa tilefni til andsvara en ég verð að takmarka það við örfá atriði sem ég ætla að gera athugasemdir við.

Í fyrsta lagi var athyglisvert þegar hv. þingmaður nefndi það undir lok ræðu sinnar að ungt fólk ætti vissulega valkosti hvar það tekur sér búsetu, sest að, vinnur og starfar. Ég get verið sammála hv. þm. Helga Hjörvar um að þessi alþjóðlega samkeppni sem Ísland á í um hæfileikaríkt fólk er staðreynd. Ég verð í því sambandi að vekja athygli hv. þm. Helga Hjörvars á því að Ísland hefur staðið sig afskaplega vel í þeirri samkeppni á undanförnum árum, enda er atvinnuástand bæði fyrir ungt fólk og annað fólk miklu betra en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslenskt atvinnulíf hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum og getað boðið upp á góð tækifæri fyrir ungt fólk. Íslenskt efnahagslíf hefur verið öflugra en atvinnulífið í nágrannalöndunum þannig að samanburðurinn hefur verið okkur afskaplega hagstæður og ég er sammála hv. þm. Helga Hjörvar um að afar mikilvægt er að við tryggjum svo verði áfram.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna annað atriði af því að hv. þm. Helgi Hjörvar taldi að helsta von okkar í framtíðinni væri sú að gerast aðili að Evrópusambandinu og evrusvæðinu. Ég deili alls ekki því viðhorfi með honum og ýmsum öðrum hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál, tel reyndar að það sé ánægjulegt og mikilvægt að ræða þetta en ég er þeirrar skoðunar að það væri stórvarasamt fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að evrusamstarfinu og ég bendi á í því sambandi að ef við lítum bara á þætti eins og hlutfall evrunnar eða viðskipti við evrulöndin í utanríkisviðskiptum Íslendinga þá er það í kringum 40% og fer lækkandi. Aðrir gjaldmiðlar eru mjög sterkir í utanríkisviðskiptum okkar. Það skiptir líka máli að taka tillit til þeirra.