132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hóf mál sitt á því að kvarta undan því að menn hefðu verið að ræða ýmis mál sem ekki vörðuðu beint efni frumvarpsins. Síðan eyddi hann talsverðu púðri í, að því er mér fannst, að reyna að sýna fram á að ekki þyrfti að vorkenna almenningi því að hann nyti svo mikillar eignamyndunar á þessum tímum og talaði svo um gervihagnað fyrirtækjanna. En ætli megi ekki kalla það nokkurn gervihagnað hjá fjölskyldunum sem hv. þm. Atli Gíslason ræddi um áðan þegar íbúðaverð rýkur upp og það veldur síðan því að fólk fær minni eða engar vaxtabætur. Ef viðkomandi fjölskylda er ekki að gera neitt annað en reyna að búa áfram í íbúð sinni, hefur sömu laun, sömu eða vaxandi greiðslubyrði af lánum, innleysir sem sagt ekki hagnaðinn með því að selja þá íbúðina, hver er þá hagnaður viðkomandi? Hann er enginn. Hann er minni en enginn. Það eru einmitt þannig fjölskyldur sem þessi ríkisstjórn er í raun og veru að refsa með því að rústa vaxtabótakerfinu eins og farið var yfir áðan. Er það ekki gervihagnaður, hv. þingmaður, hjá öllum þeim þúsundum og tugum þúsunda fjölskyldna í landinu sem búa núna við það óréttlæti sem var mjög skýrt dregið upp hér áðan af hv. þm. Atla Gíslasyni? Ég held að enginn geti vefengt eða mótmælt þeim tölum sem hann fór með beint upp úr raunverulegum framtalsdæmum lifandi fólks. Við gagnrýnum það hér og það er alveg á sýnum stað að hæstv. ríkisstjórn lyftir ekki litla fingri til að taka á þessu óréttlæti, þessari sveiflu, þessari skyndibreytingu sem hefur skert afkomu tugþúsunda fjölskyldna í landinu og það má svo sannarlega kalla gervihagnað. En hv. þm. Pétur H. Blöndal virðist ekki telja neitt athugavert við þessa forgangsröðun mála.