132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:54]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og varðar heimild fyrirtækja til að draga frá fjárhæð gengishagnaðar umfram gengistap af hvers konar eignum og skuldum í erlendum verðmæli, sér til hagsbóta. Ég hef í sjálfu sér ekkert við frumvarpið að athuga, ég held að við þurfum að gæta þess að gera vel við fyrirtæki út af fyrir sig.

Eins og fram hefur komið hjá ýmsum hv. ræðumönnum er dálítill ójöfnuður á áherslum ríkisstjórnarinnar hvað snertir fyrirtæki annars vegar, sem ég held þó að þurfi að sinna, og einstaklingum aftur á móti sem mörg dæmi sanna að hafi borið mjög skarðan hlut frá borði í þessum efnum.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um gervihagnað fyrirtækja og hann viðurkenndi reyndar að gervihagnaður einstaklinga vegna húsnæðis sem hækkaði á svipstundu á örskömmum tíma væri líka gervihagnaður. Nú er verið að leita leiða til að leiðrétta mál fyrirtækja en það virðist ekki bóla á að neitt verði gert einstaklingum til hagsbóta vegna svipaðra eða sams konar vandamála sem þeim mætir.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði líka að skuldbreyting hefði verið kjarabót sem vissulega má taka undir. En það voru kannski fyrst og fremst ummæli hans sem mig langaði til að gera nokkur skil. Hann sagði þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sofið á verðinum. Þeir sofa á verðinum gagnvart mörkum á frádrætti vegna húsnæðis. Þeir koma ekki með neinar tillögur. Það kemur ekkert frá stjórnarandstöðunni. Ég held að þarna sé ansi frjálslega farið með sannleikann og ekki síst að hv. þingmaður veit vel að það koma tillögur, ályktanir og frumvörp frá stjórnarandstöðunni. En stjórnarandstaðan hefur ekki átt afskaplega gott með að koma þeim fram.

Einmitt vegna þess að hér er rætt um þetta vil ég nefna að þingflokkur Frjálslynda flokksins lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4 30. janúar 1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Gerði það í vetur, þannig að ekki er hægt að væna þá um að þeir hafi ekki reynt að koma fram málum sínum. Þetta varðar nákvæmlega það mál sem hér er til umræðu þar sem talað er um að óheimilt sé að hækka fasteignaskatt meira en nemur breytingu á launavísitölu. Ég sé ekki betur en hérna sé nokkuð hliðstætt dæmi um að ræða. Verið er að tala um breytingar sem verða af ytri aðstæðum og hækka mörk sem nemur því að menn fá ekki vaxtabætur sem í fyrsta lagi eru lækkaðar og í öðru lagi hækkun eigna á örskömmum tíma veldur því að vaxtabætur eru teknar af hundruðum ef ekki þúsundum fjölskyldna og a.m.k. þá lækkaðar á hinum. Ég held því að Frjálslyndir hafi ekki sofið á verðinum hvað þetta snertir. Þetta er nákvæm hliðstæða við frumvarpið sem hér er til umræðu.

Reyndar er annað sem kemur fram í þessu líka. Það varðar bændur til sveita sem hafa oft og tíðum heldur rýrar tekjur. Vegna búháttabreytinga nýtist húsnæði þeim ekki um stundarsakir. Þeir geta ekki notað það en verða að borga af því fullan fasteignaskatt og hækkandi samkvæmt mati. Gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að hafi svo verið í um tvö ár að séu útihús ekki nýtt skal enginn skattur lagður á þau en hann skal lagður á að nýju ef útihúsin verða tekin í notkun sem gripahús. Þarna er verið að reyna að koma til móts við það þegar menn nýta þessi hús til atvinnustarfsemi sinnar.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna aðeins í greinargerð með því frumvarpi sem ég tel skipta þessa umræðu þó nokkuð miklu:

„Fasteignaskattur er ein af meginuppistöðum í tekjuöflun sveitarfélaga ásamt útsvarstekjum. Útsvarstekjur sveitarfélaga taka mið af tekjum fólks og hækka eða lækka á milli ára út frá tekjum þegnanna.“ — Segja má að þetta sé eðlilegur skattur og hafi fast viðmið í ráðstöfunartekjum hvers og eins. — „Fasteignagjöld taka ekki mið af tekjum fólks og þar með greiðslugetu þegnanna. Að þessu leyti eru fasteignaskattar ekki réttlátir þar sem álögur geta hækkað meira milli ára en laun þeirra sem greiða eiga.“

Í frumvarpinu er einmitt verið að tala um þennan gengishagnað fyrirtækjanna, að fara með hann á sama hátt og hér er lagt til, að ytri breytingar einstaklinga geti valdið því að álögur verði meiri en nemur ráðstöfunartekjum. Ég vek athygli á því aftur að talað er um að ekki megi hækka meira en nemur breytingu á launavísitölu. Launavísitalan er eini mælikvarðinn fyrir þessa almennu launaþróun sem menn fara eftir og er hægt að nota í þessu sambandi.

Það er reyndar fleira sem Frjálslyndir hafa lagt til í þessum málum hvað snertir tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. skattalögin. Frjálslyndir hafa stöðugt lagt það til að ekki yrði farin sú leið að lækka og fella síðan niður hátekjuskattinn. En það er búið að gera núna, hefur verið gert í áföngum. Farin hefur verið sú leið að lækka skattleysismörk í prósentum og það hefur margsinnis verið sýnt fram á með samanburði, þær tölur hef ég ekki við höndina hér og nú, að alltaf er verið að greiða skatt af minni og minni tekjum hvað snertir lágtekjufólkið. Það er alltaf verið að taka meira af því og nú er svo komið að lægstu launaflokkar og þeir sem eru á lágmarksbótum verða að borga skatta af þessu. Þetta er í rauninni ekki viðunandi og Frjálslyndir hafa lagt til að hækkun skattleysismarka yrði viðhöfð í staðinn fyrir þennan flata niðurskurð sem færir hátekjumanninum skattafslátt upp á tugi þúsunda í hverjum mánuði en skiptir lágtekjufólkið afskaplega litlu og miklu minna.

Síðan er eitt enn. Skattur af tekjum þeirra sem aðstöðu hafa til að nýta sér þær sem fjármagnstekjur er miklu lægri en þeirra sem fá launatekjur og/eða lífeyrissjóðstekjur og verða borga fulla skattprósentu af þeim.

Frú forseti. Ég vildi aðeins koma hérna upp til að vekja athygli á að stjórnarandstaðan kemur vissulega að þessu máli og er alveg tilbúin að mæla fyrir málum af því tagi ef þess væri einhver kostur.