132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra um að hann og ríkisstjórnin hafi viljað ræða kjör hinn lægst launuðu. Hæstv. ráðherra vildi bera það af sér að hann neitaði að ræða hér kjör hinna lægst launuðu. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

Á morgun er efnt til ráðstefnu undir heitinu Velferðarríki á villigötum? Það eru verkalýðshreyfingin á Íslandi, ASÍ, BSRB, Landssamband eldri borgara, Samiðn, Öryrkjabandalagið og fleiri aðilar sem standa að þessari ráðstefnu. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur hæstv. ráðherra neitað að sækja ráðstefnuna og neitað að senda fulltrúa ráðuneytisins á ráðstefnuna. Í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag segir að Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari verði fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Sivjar Friðleifsdóttur og Árna Mathiesens fjármálaráðherra í pallborði. Getur þetta verið rétt? Eru þetta ekki einhver mistök? Er það virkilega rétt að hæstv. fjármálaráðherra neiti að taka þátt í umræðu sem helstu verkalýðssamtökin í landinu og hagsmunasamtök almennings hafa boðað til og óskað eftir nærveru hans eða fulltrúa úr fjármálaráðuneytinu? Hljóta það ekki að vera mistök að setja það hér á blað í auglýsingu að sáttasemjari ríkisins verði fulltrúi ríkisstjórnarinnar í umræðu um þessi efni? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra upplýsi um þetta.

Hitt sem ég vildi nefna er að kröfur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingflokks okkar hér í þingsalnum, um (Forseti hringir.) að tekið verði á málum lágt launaðs fólks og tekjulítils og efnt til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu, (Forseti hringir.) hafa verið virtar að vettugi og (Forseti hringir.) þar með hefur ráðherrann neitað að ræða kjör hinna lægst launuðu.