132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:21]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra var ekki sannfærður um að það væri til þess fallið að tryggja hér stöðugleika til framtíðar að taka upp annan gjaldmiðil í landinu, evruna, og leggja af íslensku krónuna og það er út af fyrir sig sjónarmið hjá hæstv. ráðherra. Hann vísaði til þeirra stöðugu gjaldmiðla svissneska frankans og norsku krónunnar í því sambandi. Ég held að hæstv. ráðherra fari ekki fyllilega rétt með þegar hann vísar með þeim hætti til svissneska frankans enda hygg ég að sveiflur í honum hafi, ef eitthvað er, jafnvel á stundum slagað upp í að vera sambærilegar við það sem gerst hefur með íslensku krónuna, þó að það hafi dregið úr þeim í seinni tíð þá sé það sögulega mikil sveiflumynt.

Ef Norðmenn eiga að vera leiðtogar lífs okkar í þessum efnum er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þá — úr því að hann vill ekki huga að nýjum gjaldmiðli — koma til álita að hverfa frá verðtryggingu íslensku krónunnar á verðtryggðum útlánum í íslenskum krónum, m.a. vegna þess að það sérstaka fyrirkomulag okkar hér virðist draga úr getu Seðlabankans sem hafi þau áhrif að það dragi úr þenslunni þannig að nú hefur bankinn hækkað stýrivexti umfram þær áætlanir sem hæstv. fjármálaráðherra gerði fyrir þetta ár, að ekki sé talað um hvernig spár ráðuneytisins um gengið og aðra slíka hluti hafa farið. Ég held að það sé mikilvægt að kalla eftir þeirri afstöðu því eins og ég rakti hér áðan hefur forstjóri stærsta fjármálafyrirtækis landsins lýst því yfir að kostirnir séu fyrst og fremst tveir, annaðhvort að leggja af verðtrygginguna en reyna að halda í krónuna sem gjaldmiðil eða fara í aðra mynt.