132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:26]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessum orðum hæstv. fjármálaráðherra um verðtrygginguna því þótt okkur greini á um það hvaða gjaldmiðil sé skynsamlegast að hafa þá er ákaflega mikilvægt, ef það er ætlun stjórnvalda að ríghalda í íslensku krónuna til framtíðar, að huga sérstaklega að verðtryggingarþættinum. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að við þær aðstæður sem við höfum núna og þegar við horfum til þess að okkur hefur gengið gríðarlega illa að eiga við hagsveiflur hér á Íslandi og búið við meiri sveiflur hér en þolandi er þá þurfum við að skoða alveg sérstaklega það sem skilur okkur að frá öðrum löndum. Eitt af því sem er alveg séríslenskt fyrirkomulag er verðtryggingarkerfið og við hljótum þess vegna að fara að huga alvarlega að því a.m.k. að draga úr vægi verðtryggingarinnar í hagkerfi okkar þó að vera kunni að (Forseti hringir.) ekki sé rétt að ganga svo langt að banna það eins og hæstv. ráðherra vísaði til.