132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fólk sem ég er að tala um er líka í skattkerfinu eins og fólkið sem hv. þm. Atli Gíslason er að tala um. Það er til fólk sem tekur lán á móti hækkandi eignarverði til að nota í annað, í aðrar fjárfestingar, eða í neyslu. Það hefur verið talað um þetta í þjóðfélaginu og er búið vera í umræðunni síðustu mánuði og missiri.

Þetta fólk fær líka vaxtabætur samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru í dag. Við sjáum ekki heildina í þessu fyrr en að álagningunni er lokið. (AtlG: Þau lán sem eiga að vera til íbúðarkaupa?) Þau lán eru að nafninu til til íbúðarkaupa en hluti af því vandamáli sem við höfum verið að tala um undanfarin missiri er að þau hafa síðan verið notuð í eitthvað annað. (Gripið fram í.)

Þar sem hv. þingmaður var ekki á þingi í desember þegar við fjölluðum um fjárlögin þá útskýrði ég hvers vegna breytingar voru ekki gerðar á uppfærslunum. Það var vegna þess að breytingar (Forseti hringir.) sem fyrirhugaðar voru í fjárlögum um lækkuð hlutföll voru heldur ekki gerðar.