132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. verði framlengd um hálft ár, eða fram til 31. desember 2006. Sambærileg lækkun hefur verið samþykkt tvisvar sinnum áður en markmið hennar er að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni. Verð á dísilolíu á heimsmarkaði er enn óvenjuhátt í samanburði við heimsmarkaðsverð á bensíni og áfram ríkir óvissa um það hvernig heimsmarkaðsverð á dísilolíu og bensíni mun þróast innbyrðis á næstu mánuðum. Með vísan til þessa ástands er því með frumvarpi þessu lagt til að hin tímabundna lækkun olíugjalds verði framlengd um hálft ár, eða fram til 31. desember 2006. Sömu tillögu er að finna í frumvarpinu varðandi sérstaka kílómetragjaldið til samræmis við olíugjaldið.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að björgunarsveitum verði heimilt að nota litaða gjaldfrjálsa olíu á ökutæki sín en í staðinn greiði þær sérstakt kílómetragjald. Við upptöku olíugjalds jukust álögur á starfsemi björgunarsveita vegna reksturs dísilbifreiða nokkuð frá því sem var í þungaskattskerfinu, enda er olíueyðsla þessara farartækja oftar en ekki í litlu samræmi við ekna kílómetra. Þessari tillögu er ætlað að draga úr þeim álögum þannig að kostnaður björgunarsveitanna verði svipaður og hann var fyrir upptöku olíugjaldsins.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að það muni leiða af sér 250 millj. tekjutap fyrir ríkissjóð frá því sem ella hefði orðið á árinu 2006 miðað við að sala á gjaldskyldri dísilolíu verði sú sama og hún var á síðari hluta ársins 2005.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.