132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:47]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin og kalla eftir því að upplýsingar um þau tekjuáhrif sem breytingarnar höfðu í för með sér fyrir ríkissjóð verði lagðar fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það er mjög mikilvægt að við hvetjum til þess með hinum almennu skilyrðum að fólk nýti umhverfisvænni kostinn, sem er dísilolían, í ríkari mæli en gert hefur verið. Það er eitt af því sem við getum lagt af mörkum í mengunarmálum og frá umhverfissjónarmiði er það mikilvægt að olíugjaldið sé sannanlega ekki hærra en þær álögur sem fyrir voru á dísil og þess vegna full ástæða til að skoða það hvort þessar 4 krónur þurfi yfir höfuð að koma inn til þess að bæta ríkissjóði tekjutapið. Nauðsynlegt er að það sé alveg á hreinu áður en þessu ákvæði verður hleypt í gegn.