132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:52]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta svar. Ég get sagt að ég mun nota fyrsta tækifæri hér í þinginu sem ég fæ til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvar þetta er.

Mín skoðun er einfaldlega sú, miðað við það sem sagt hefur verið og það sem ég var hér að gera að umtalsefni, að Sjálfstæðisflokkurinn stoppar þetta mál í ríkisstjórn. Það getur ekki verið öðruvísi, nema þá að hæstv. iðnaðarráðherra sé bara að tala eitthvert fleipur sem hún meinar ekkert með. Auðvitað ber þetta keim af því og þannig held ég að málið sé.

Virðulegi forseti. Það eru til svo mýmörg dæmi og aðferðir til þess að lækka flutningskostnað, t.d. ein sem er mjög einföld, að skilgreina flutningsfyrirtæki í landinu sem flytja aðföng til og frá vegna atvinnurekstrar eða matvæla í landinu, setja þau á lituðu olíuna. Það væri ein aðferðin, þannig að margt er til.

Virðulegur forseti. Í þessu stutta andsvari langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki hafi komið til tals að gera þetta fyrir björgunarsveitirnar án þess að fara í kílómetramælingu heldur með því að þær leggi fram reikninga eftir sitt reikningsár og fái endurgreiðslu þannig út af olíukaupum.