132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[19:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég var að reyna að segja áðan þegar ég var að reyna að gera grein fyrir afstöðu hinna ýmsu fylkinga hér á Alþingi þá er það svo að þrátt fyrir frjálshyggju okkar hv. þm. Péturs Blöndals þá teljum við að jafnvel frjálshyggjan geti nýst í umhverfismálum og það með hinum efnahagslegu stjórntækjum og ég hef reyndar flutt þingmál um slíkt. Ég held að allir þeir sem huga að umhverfismálum geri sér grein fyrir því að eldsneytisgjöld eru hluti af hinum efnahagslegu stjórntækjum og þeim er beitt til þess að hafa áhrif á eldsneytisnotkun. Ef staðan er sú að til viðbótar við umhverfisáhrifin, sem hafa verið rædd hér, þá séu efnahagslegu áhrifin líka farin að vera mjög íþyngjandi fyrir þjóðarbúið, þá þarf einhvern veginn að verðleggja þessi áhrif. Þá getur vel verið að það sé hreinlega mjög óskynsamlegt að nota þá fjármuni sem við höfum til þess að lækka skatta og álögur, að nota þá einmitt til þess að lækka þessa skatta og þessar álögur. Ef tillögur eru vel útfærðar ætti slíkt og koma í sama stað niður fyrir skattgreiðandann en hafa jákvæð áhrif varðandi umhverfið.

En eins og ég segi enn einu sinni þá verðum við að skoða þetta heildstætt út frá okkar efnahagsumhverfi, út frá því hvernig þróunin er erlendis og út frá því hvernig við teljum skynsamlegast að afla tekna fyrir ríkissjóð og að sjálfsögðu að ná jöfnuði í ríkisrekstrinum.