132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Dagskrá fundarins.

[19:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þarf að sjálfsögðu að halda mig við þetta þrönga umræðuefni, um fundarstjórn forseta, og get þess vegna ekki leiðrétt hæstv. fjármálaráðherra varðandi misskilning hans hvað varðar niðurgreiðslu á samgöngumálum, en það geri ég við annað og betra tækifæri.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta þingsins á því að dagskráin eins og hún lá fyrir í dag telur 21 þingmál. Við erum núna búin að ljúka umræðu um tvö fyrstu þingmálin. Það hefur verið ágæt og málefnaleg umræða um þau bæði. En ég óska eftir því að fá upplýsingar um það frá stjórn þingsins hver framvindan verður, hvort ætlunin sé að halda umræðu inn í kvöldið. Ég vil jafnframt vekja athygli hæstv. forseta þingsins á því að hér er á dagskrá fjöldi þingmála sem þola bið, sem engin ástæða er til að knýja í gegnum þingið núna fyrir vorið. Þar er náttúrlega efst á blaði sá dagskrárliður sem næstur er, hinn þriðji í röðinni: Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Er það virkilega svo að ríkisstjórnin forgangsraði málum þannig að hún ætli að reyna að knýja fram umræðu um þetta mál núna? Ég óska eftir upplýsingum frá hæstv. forseta um hvað ákveðið hafi verið um þinghaldið. Það er ekkert samkomulag við stjórnarandstöðuna í því efni, ríkisstjórnin fer nú fram algerlega á eigin forsendum, hefur hunsað allar óskir sem frá stjórnarandstöðunni hafa komið um samkomulag og samráð um lyktir þingsins.

Þess vegna viljum við núna fá að vita hvaða áform eru uppi um framhaldið. Á virkilega að taka hér til umræðu eitt umdeildasta mál sem liggur fyrir þinginu núna, um einkavæðingu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins? Er það virkilega svo að ríkisstjórnin forgangsraði málum þannig að hún ætli að taka tíma þingsins til þess núna á þessum lokadögum?

Ég vek athygli á því að samkvæmt áætlun þingsins átti Alþingi að ljúka á morgun. Það gengur að sjálfsögðu ekki upp en við sjáum hér forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar sem situr að völdum í landinu, illu heilli: Nú vill hún fara að láta ræða um einkavæðingu á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Heyr á endemi!