132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Dagskrá fundarins.

[19:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að nota þennan dagskrárlið nema að litlu til þess að vísa á bug missögnum hjá hæstv. fjármálaráðherra sem gerði mér þau orð að ég vildi fara að stofna ríkisolíufélag. Ég benti hæstv. ráðherra á að það væri enginn munur á milli olíufélaganna í verði á olíum og bensíni. Bara til að halda þessu til haga að hæstv. ráðherra haldi sig við það sem sagt er.

Hinu ætla ég síðan að vekja athygli á og taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni varðandi dagskrána að við erum búin með tvö fyrstu málin sem samþykkt var að taka hér á dagskrá með afbrigðum, mál sem komu svo seint fram og voru talin svo brýn. Svo leit ég á skjáinn frá þinginu á tölvunni og þá sé ég að það er búið að boða nefndarfundi á morgun sem hefur ekkert verið tilkynnt um eða ég hef þá misst af því hafi forseti tilkynnt um nefndarfundi klukkan 8 í fyrramálið og að allur dagurinn á morgun verði tekinn undir nefndir. Það má vel vera að það hafi verið fjallað um þetta einhvers staðar en ég sá þetta fyrst á skjánum.

Svo ef ég fletti upp starfsáætlun þingsins, þá minnir mig að það hafi verið gert ráð fyrir eldhúsdegi á morgun eða eitthvað í þá veruna. Ég hef ekki heyrt að honum hafi verið frestað. Hefur það verið tilkynnt hér? (Gripið fram í: Jú, jú.) Það er þá ágætt að það hafi þá verið tilkynnt en það hefur ekkert verið tilkynnt að öðru leyti um framhald þinghaldsins. Ég er ekki að setja mig neitt upp á móti því að þingið starfi hér áfram og fram í næstu viku eða eftir því sem nauðsyn krefur til að taka á aðsteðjandi málum eins og kjörum elli- og örorkulífeyrisþega og eins og á kjörum fólks sem er í láglaunastörfum, fólks sem vinnur t.d. á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunar- og dvalarheimilum, að á þeim málum sé tekið. Ég mundi gjarnan vilja taka það hér á dagskrá. En að menn rokki hér og keyri áfram dagskrá án þess að nokkuð sé vitað um framhaldið eða án nokkurs samráðs við þingmenn um framhaldið, það finnst mér alveg ótækt og ítreka og tek undir spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um það hvað menn ætli að gera með þetta dagskrárplagg sem var kynnt um dagskrá fundarins í dag og við erum búin með tvö fyrstu málin á. Næsta mál á dagskrá er einkavæðing ÁTVR. (Forseti hringir.) Það er af hálfu ríkisstjórnarinnar brýnasta málið sem næst er á dagskrá (Forseti hringir.) ef marka má þetta plagg.