132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Dagskrá fundarins.

[19:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að dagskrár þingfunda að undanförnu hafa verið ákveðnar algerlega einhliða af forseta eða meiri hlutanum, án nokkurs samráðs. Það er ekki mjög gæfulegt ef menn vilja reyna að greiða götu einhvers samkomulags og einhvers skilvirks skipulags hér um fundarhöldin að reyna a.m.k. ekki að sýna lit í þeim efnum. Það undarlega er að það er eins og það sé ekki einu sinni viðleitni í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn til þess að reyna að hafa hér eitthvert skipulag eða eitthvert skikk á fundarhaldinu.

Ég segi það alveg hreint sem mína meiningu að það er eins og hvert annað grín að fara að koma hér 2. maí, en þingi átti að ljúka 4. maí, og ætla að troða hér inn í umræðurnar milli mála — sem eftir atvikum menn hafa skilning á að sé þörf á að afgreiða, eins og tímabundnar ráðstafanir vegna gengisbreytinga eða olíuverðshækkana — frumvarpi til laga um hlutafélagavæðingu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, það er auðvitað alveg yfirgengilegt. Og sú spurning er alveg fullgild hvort það sé forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar. Er þetta þvílíkt hugsjónastórmál fyrir ríkisstjórnina að háeffa ÁTVR að öllu öðru sé ýtt til hliðar og síðustu klukkutímum þingsins, ef ætti að reyna að halda hér starfsáætlun, ráðstafað í það? Það er auðvitað ákaflega ógæfulegt, frú forseti.

Það fer líka að verða tímabært að lýsa eftir því hvort það sé einhver verkstjórn hér á hendi af hálfu meiri hlutans eða ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekkert mikið orðið var við þá forkólfa hennar hér heima við upp á síðkastið. Er þetta algjörlega reiðulaust, bara í reiðuleysi? Það er eiginlega erfitt að fá annað á tilfinninguna. Það virðist hver ráðherra setja hér undir sig hausinn og þumbast með sín mál. Við hljótum að skilja það svo að hæstv. fjármálaráðherra sé það sáluhjálparatriði að fá að mæla hér fyrir því að hlutafélagavæða ÁTVR, það komi alveg frá hans innstu hjartarótum að koma þessu máli eitthvað áleiðis. Þá bara vottar maður honum samúð í því sambandi. En það er þá ekki vandinn á þeim bænum ef ekkert brýnna eða þarfara er að gera í fjármálaráðuneytinu en að standa í svona löguðu.

Ég vek líka athygli á því að hér eru fjöldamörg mál sem eru komin til 3. umr. og allmörg þeirra þarfnast einhverrar umræðu. Það eru breytingartillögur sem væntanlega á að mæla fyrir o.s.frv. Ég held að það væri nú nær ef menn vilja eitthvað einfalda hlutina og greiða fyrir skikkanlegum þinglokum að stytta t.d. dagskrána og einfalda með því að ljúka þá einhverju af þeim málum sem sæmilegt samkomulag er um og eru hér á dagskrá og bíða eftir því.

Ég held því að það væri gáfulegast að gera hlé á þessum fundi, það er hvort sem er kominn kvöldmatur, (Forseti hringir.) og að menn töluðu eitthvað saman og reyndu að koma einhverju viti í þetta.