132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Með frumvarpi þessu er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til þess að stofna hlutafélag um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Gert er ráð fyrir að hið nýja félag beri heitið ÁTVR hf. og verði í eigu íslenska ríkisins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til neinar grundvallarbreytingar á starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins samhliða hlutafélagavæðingu fyrirtækisins. Í því skyni eru helstu ákvæði laga nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, sem lagt er til að verði felld brott, tekin efnislega upp í frumvarpi þessu. Áfram er því gert ráð fyrir að ÁTVR hf. hafi með höndum einkaleyfi á smásölu áfengis og heildsöludreifingu tóbaks. Enn fremur er áfram gert ráð fyrir að ÁTVR hf. tryggi merkingar tóbaks og álagningu tóbaksgjalds. ÁTVR hf. skal starfa innan þess ramma sem lagður er í lögum um áfengismál.

Eins og rakið er nánar í frumvarpinu eru veigamikil rök fyrir því að færa rekstrarform Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins yfir í hlutafélagsformið. Til að mynda má nefna að það rekstrarform er mun hentugra fyrir rekstur fyrirtækisins, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að ríkissjóður verði eini eigandi hlutafélagsins. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að hlutafélagsformið byggist á traustum lagalegum grunni, sbr. lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Í þeim lögum eru m.a. fastmótaðar reglur um hluthafafundi, félagsstjórn og framkvæmdastjóra. Enn fremur eru skýrar reglur um endurskoðun og ársreikningsgerð hlutafélaga. Auk þess má gera ráð fyrir því að allur rekstur fyrirtækisins verði sveigjanlegri og gagnsæi í rekstri aukist.

Að lokum er rétt að árétta að þær breytingar sem felast í frumvarpinu leiða ekki til grundvallarbreytinga á starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Einungis er um að ræða nýtt rekstrarform á fyrirtækinu sem er mun hentugra út af þeirri starfsemi sem fyrirtækið hefur með höndum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.