132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur svo sem fátt á óvart í málflutningi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að það hafi varla hvarflað að nokkrum manni að hann mundi styðja þetta frumvarp og sjálfsagt hefðu flestir, ef þeir hefðu verið beðnir um að gefa fyrir fram útdrátt úr ræðunni, verið með hann nokkurn veginn á nótunum eins og ræðan var.

Ég held að hv. þingmaður ætti að fara aðeins út í þjóðfélagið, út í samfélagið og hitta allt það fólk sem rekur hér fyrirtæki í ýmiss konar starfsemi, og athuga hvers konar rekstrarform þar er viðhaft. Þá mundi hann komast að því að yfirgnæfandi meiri hluti þeirrar starfsemi sem fer fram hjá fyrirtækjum þjóðarinnar er í hlutafélagaforminu.

Hann ætti þá að velta því fyrir sér hvers vegna það er þannig og velta því þá fyrir sér hvort það hafi skilað okkur góðu eða illu. Og ef hann getur opnað hug sinn nægilega mikið til að fara út í þessa miklu aðgerð hleypidómalaust, þá mun hann auðvitað komast að þeirri niðurstöðu að þetta er það rekstrarform sem hefur skilað mestu og bestu þegar til kastanna kemur.