132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvaða áform séu uppi af hálfu stjórnar þingsins um þinghaldið í kvöld. Við erum að ræða núna 3. dagskrármálið en í upphafi þingfundar í dag var þingið beðið um að veita afbrigði fyrir 4. dagskrármálinu, þ.e. stjórnarfrumvarpi um almannatryggingar. Það var veitt afbrigði, á þeirri forsendu væntanlega að menn teldu brýna nauðsyn reka til að málið yrði tekið hér til umræðu og vísað til nefndar. En þá bregður svo við að stjórn þingsins skýtur inn á milli þessara mála hlutafélagavæðingu um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Óumdeilanlega mjög vafasömu máli. Mjög umdeildu máli innan þings og utan.

Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. forseta: Hvaða áform eru uppi? Það er ljóst að það eru margir sem þegar hafa skipað sér á mælendaskrá um þetta dagskrármál. En hvaða áform eru uppi af hálfu stjórnar þingsins? Verður umræðan um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til lykta leidd hér í kvöld eða stendur til að taka upp umræðu um almannatryggingar? Hvaða áform eru uppi af hálfu stjórnar þingsins? Eða var þetta allt í plati? Var hún í plati atkvæðagreiðslan fyrr í dag um afbrigði sem heimiluðu þinginu að taka til umræðu stjórnarfrumvarpið um almannatryggingar? Var það í plati? Rekur ekki brýna nauðsyn til þess að fá það mál á dagskrá og reyna að koma því til nefndar. (Gripið fram í: Nei, nei.) Ekki? Nei. Ef svo er ekki þá þurfum við bara að fá það upplýst. En ríkisstjórnin lagði á það ríka áherslu hér í upphafi þinghaldsins í dag.

Nú vil ég fá skýr svör frá hæstv. forseta um hvert framhaldið verður á þessari umræðu og á þessum fundi.