132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:44]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt í ljósi þeirra orða sem hæstv. forseti lét falla áðan að nú yrði þessari umræðu frestað um sinn og 4. dagskrármálið tekið fyrir. Allt er þetta að verða einkennilegra og einkennilegra eftir því sem líður á kvöldið, og því eðlilegt að við tökum okkur svona 10 mínútna hlé og ræðum saman, þ.e. hæstv. forseti og formenn þingflokka, um framhald þingfundar í kvöld og hvað menn ætla að halda lengi áfram. Það er búið að boða nefndarfundi í fyrramálið og ég veit að mjög margir hv. þingmenn eru nú þegar að undirbúa sig undir þau nefndarstörf. Ég veit að það eru mjög margir hv. þingmenn sem vilja taka þátt í umræðu um 3., 4. og reyndar um önnur mál líka sem hér eru á dagskrá, 21 mál.

Mér þætti sem þingflokksformanni mjög gott að vita með fyrirvara hvenær ég á að kalla mitt fólk til starfa. Hvenær t.d. á að taka fyrir Lífeyrissjóð bænda sem er 16. mál á dagskrá? Má búast við því um kl. 6 eða 7 í fyrramálið eða hafa menn gert einhver tímaplön úr því að það er búið að taka þá ákvörðun að fresta þessu um stund? Og munu þá nefndarfundir hefjast á fyrir fram boðuðum tíma?

Ég tek líka undir þá kröfu sem hér kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að hæstv. forsætisráðherra sé hér viðstaddur þegar komið er að lokum þinghalds og samningar í gangi, að þá sé hæstv. forsætisráðherra á staðnum. Formaður hins risasmáa Framsóknarflokks láti sjá sig af og til í þingsölum og taki þátt í umræðunni.