132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að festa í sessi ákveðið kerfi sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett á fót, svokallað valfrjálst stýrikerfi, tilvísunarkerfi.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort í þessu nýja kerfi sem hún hefur sett á fót sé þar með kominn vísir að tvöföldu kerfi, þ.e. eitt fyrir efnameiri og annað fyrir efnaminni í ljósi þess að hinir efnameiri geta leyft sér samkvæmt þessu kerfi að fara beint til sérfræðilæknis og sleppt því að fara til heilsugæslunnar fyrst. Sömuleiðis ber þá að minna á að hjartalæknar hafa frjálsa gjaldskrá en hæstv. heilbrigðisráðherra hefur staðfest að svo sé. Liggur það ekki í augum uppi að efnameiri einstaklingar geti þá einfaldlega borgað sig fram fyrir röðina í ljósi þess að hjartalæknar eru með frjálsa gjaldskrá og ekki samningsbundnir Tryggingastofnun og þar af leiðandi ekki bundnir einhverjum samningsskilyrðum? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að koma í veg fyrir að við setjum á fót heilbrigðiskerfi sem mismunar fólki einmitt á grundvelli efnahags?