132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: Af hverju var verið að setja á þetta valfrjálsa endurgreiðslukerfi? Svarið liggur í augum uppi. Það var vegna þess að hjartalæknar sjálfir gengu út af gildandi samningi og þar með féll niður endurgreiðsluréttur sjúklings. Til að tryggja sjúklingum endurgreiðsluréttinn var sett á þetta valfrjálsa endurgreiðslukerfi. Það var til þess að tryggja sjúklingum endurgreiðslu fyrir þjónustuna, það liggur algjörlega í augum uppi. Þetta eru sem sagt viðbrögð okkar, viðbrögð mín, við því að hjartalæknar ganga af samningi af því að nýir samningar tókust ekki við þá. Það voru samningar í gildi en þeir vildu fá öðruvísi samninga.

Ég tel, virðulegur forseti, að heilsugæslan sé í stakk búin til að taka við (Forseti hringir.) því að útbúa þessar beiðnir.