132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:08]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með þessu nýja kerfi sem hæstv. ráðherra er búin að koma á við hjartalækna greiða hjartasjúklingar hærri upphæðir fyrir þjónustuna, bæði hjartasjúklingarnir sem þurfa fyrst að fara í heilsugæsluna og síðan til hjartalæknanna, þeir þurfa að borga á báðum stöðum, sem er viðbót, og síðan auðvitað þeir sem borga fullt.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Óttast hún ekki að aðrir sérfræðilæknar muni fara sömu leið og hjartalæknarnir og segja sig frá samningi og setji upp sína eigin gjaldskrá og fari sem sagt af samningi við Tryggingastofnun og þannig verði komið á tvöföldu kerfi? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hún koma í veg fyrir að allir sérfræðingar fari af samningum við Tryggingastofnun og setji upp sína eigin gjaldskrá?