132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að hjartalæknar voru á samningi en gengu af honum. Af hverju gengu þeir af honum? Það var vegna þess að við vorum ekki tilbúin til að greiða þá upphæð sem þeir vildu fá fyrir aukna þjónustu. Þetta var upphæð sem var miklu hærri en sú upphæð sem ég hef séð fjallað um í blöðunum, miklu hærri.

Ef við búum til það kerfi að samningur sé í gildi en við þurfum samt að borga miklu hærri greiðslur fyrir stóraukna þjónustu við einn hóp, hvað gera þá aðrir hópar? Væntanlega koma þeir í kjölfarið og vilja líka fá miklu hærri greiðslur fyrir sína þjónustu, þannig að hér er um svolítið prinsippmál að ræða. Ég vona að aðrir hópar virði samninginn og séu á samningnum til ársins 2008 eins og til stóð.

Varðandi gjaldskrána höfum við vegna samningsleysisins gefið út viðmiðunargjaldskrá sem við endurgreiðum eftir. Hjartalæknar geta sett upp öðruvísi gjaldskrá, þeir eru ekki samningsbundnir.

Ég tel að bráðamóttaka LSH geti sinnt því aukna (Forseti hringir.) álagi sem þessu fylgir.