132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég man þessa tölu rétt þá sagði 21 hjartalæknir sig af samningi en ekki einn. Hjartalæknarnir sem sögðu sig af samningi voru, að mig minnir, allir starfandi líka á sjúkrahúsum. Þær verktakagreiðslur og sú þjónusta sem þeir hafa veitt á einkastofum sínum er hluti af starfsemi þeirra.

Ég vil taka fram að þetta er mjög mikilvæg starfsemi sem hjartalæknarnir sinna. Það er alveg ljóst að þeir munu auðvitað áfram sinna þeirri mikilvægu þjónustu við þá sem koma með beiðni til þeirra og hugsanlega til annarra líka sem fara ekki beiðnaleiðina en eru þá tilbúnir til að borga fulla greiðslu án þess að fá endurgreiðslu.

En þetta er staðan sem við vorum í. Það náðust ekki samningar. Það var of langt á milli þannig að þetta var eini kosturinn sem við gátum boðið upp á til þess að tryggja fólki endurgreiðslu sem þarf á þessari þjónustu að halda.