132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:19]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Best hefði verið ef samningurinn hefði verið virtur af aðilum sem gerðu hann. En hjartalæknar töldu sig ekki geta orðið við því. Þeir töldu að umsamið afsláttarkerfi sem er í samningnum hentaði þeim illa. Þeir töldu sig þurfa að veita of mikinn afslátt. Afslátturinn var eitthvað í kringum 5% sem þeir áttu að veita samkvæmt samningnum. Þetta valfrjálsa endurgreiðslukerfi eru því viðbrögðin við því að við misstum þá af samningi.

En svona þarf að gera þegar menn vilja tryggja endurgreiðslur. Þá eru þetta eðlileg viðbrögð. Ef við hefðum ekkert gert hefði enginn fengið neitt endurgreitt. Er það það sem hv. þingmenn vilja? Ég held að það vilji enginn. Við vildum tryggja endurgreiðslur til þeirra sem á þeim þurfa að halda með því að bjóða upp á valfrjálst endurgreiðslukerfi. Að öðrum kosti hefðum við ekki getað endurgreitt neitt.