132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hjartalæknar gengu að gildandi samningi. En þeir höfðu þriggja mánaða uppsagnarfrest. Það er alveg rétt. Þeir nýttu sér hann og sögðu upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara. Á meðan voru auðvitað þreifingar í gangi og reynt að semja. En það tókst ekki.

Ég trúi ekki að hv. þm. Pétur Bjarnason hefði verið tilbúinn til að borga fyrir einingar ef hann hefði ekki sannfæringu fyrir því að það væri réttmætt. Við töldum að það væri of langt á milli sjónarmiða okkar í heilbrigðisráðuneytinu og sjónarmiða hjartalækna. Menn náðu því ekki saman. En til að tryggja sjúklingum endurgreiðslu var þetta valfrjálst endurgreiðslukerfi.

Þetta er sú staða sem kom upp og viðbrögð okkar eru einmitt til að bjóða upp á (Forseti hringir.) endurgreiðslu fyrir þessa mikilvægu þjónustu fyrir sjúklingana.