132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:47]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í núverandi heilbrigðiskerfi höfum við haft lækna sem hafa verið án samnings við hið opinbera. Til dæmis hefur hluti bæklunarlækna verið án samnings. Við höfum ekki talað fyrir því að niðurgreiða eigi þjónustu einstaklinga sem eru án samnings, svo það sé alveg skýrt. (Gripið fram í: Er svarið nei?) Svarið er nei. (Gripið fram í.) Nei, við erum ekki sammála hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra er með sinni leið að bjóða hættunni heim, er að bjóða upp á mismun eftir efnahag.

Það getur vel verið að við séum sammála því, hæstv. heilbrigðisráðherra, að við viljum ekki niðurgreiða þjónustu hjá læknum sem eru án samnings við Tryggingastofnun ríkisins. En okkur greinir á um leiðina. Ég hef bent á aðra leið. Fyrrverandi heilbrigðisráðherrar hafa farið þá leið, t.d. með því að setja reglugerð með allt öðrum hætti sem tekur á endurgreiðslurétti almennings. (ÁRJ: Þegar búið er að semja.) Þegar búið er að semja. Nákvæmlega. Það er kjarni málsins. Sú leið hefur verið farin. Okkur var sagt í heilbrigðisnefnd að ástæðan fyrir að þetta frumvarp væri sett fram með þessum hætti væri einmitt að koma í veg fyrir hugsanleg málaferli þeirra sem fara beint til sérfræðilæknis án tilvísunar. (Gripið fram í.) Í ljósi þess að þeir væru þá í skilningi laganna hugsanlega sjúkratryggðir.

Það er ekki verið að tryggja hér endurgreiðslurétt almennings. Það er verið að koma í veg fyrir greiðslurétt þeirra sem fara beint til sérfræðilæknis og búa til kerfi sem getur mismunað fólki eftir efnahag og getur í heild sinni bæði verið dýrara fyrir hið opinbera og einstaklinginn.

Ég hvet því hæstv. heilbrigðisráðherra að hugsa þetta til enda. Það getur vel verið að markmið hennar sé að koma í veg fyrir að greitt sé fyrir þjónustu lækna sem ekki eru á samningi. En þetta er afleit leið því hún brýtur gegn því grundvallaratriði að heilbrigðisþjónustunni ber að vera algjörlega óháð efnahag viðkomandi sjúklings.