132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:49]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hafa ýmsir á síðustu árum mælt með tilvísunarkerfi, m.a. fyrrverandi þingmenn Alþýðuflokksins og núverandi þingmenn Samfylkingarinnar. Ég bendi á að Sighvatur Björgvinsson, meðan hann var heilbrigðisráðherra, þá ráðherra Alþýðuflokksins, beitti sér mjög hart fyrir því að koma á tilvísunarkerfi.

Í andsvari áðan komu fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni ákveðnar athugasemdir sem ég skildi með þeim hætti að tilvísunarkerfi, eins og verið er að setja á núna hvað varðar hjartalækna, leiði af sér tvöfalt heilbrigðiskerfi. En það er hægt að útfæra tilvísunarkerfi á ýmsa vegu. Það hefur verið gert í nágrannalöndum okkar. Ef sjúklingur kemur t.d. ekki með tilvísun til sérfræðings, þá annaðhvort greiðir hann meira eða þá að hann þarf að greiða þjónustuna fullu verði.

Í því felst náttúrlega ákveðin mismunun má segja. Í rauninni er það svo að upphæð greiðsluþátttöku fer eftir því hvaða leið sjúklingurinn kýs að fara til sérfræðingsins.

Það má eiginlega segja að tilvísunarkerfið feli í sér ákveðna mismunun þó ég vilji ekki taka svo djúpt í árinni að segja að það leiði af sér tvöfalt heilbrigðiskerfi, alls ekki. En ég velti fyrir mér í þeirri umræðu sem farið hefur hér fram og þeim athugasemdum og hugleiðingum sem hafa komið frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, hvort skilja megi málflutning hv. þingmanns svo að Samfylkingin sé horfin frá hugmyndum um tilvísunarkerfi og mæli ekki lengur með þeirri leið? Mér þætti mjög áhugavert að heyra svar við þeirri spurningu.