132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:56]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er spurt hvort ég vilji tilvísunarkerfi eða ekki. Ég vil ekki svona tilvísunarkerfi, svo ég tali skýrt. Ég vil ekki tilvísunarkerfi sem getur mismunað fólki eftir efnahag. En það er vel hægt að hafa tilvísunarkerfi án þess að mismunað sé eftir efnahag. Til dæmis tilvísunarkerfi sem gerir ráð fyrir samningi viðkomandi lækna við Tryggingastofnun ríkisins eða gerir ekki ráð fyrir frjálsri gjaldskrá, gerir ráð fyrir ákveðnum samningsgildum. Þetta tilvísunarkerfi gerir ekki ráð fyrir því. Það eru því gallar við þessa útgáfu af tilvísunarkerfi. Það er ekki hægt að kvitta upp á hvaða tilvísunarkerfi sem er bara af því að það heitir tilvísunarkerfi.

Það er líka hægt að hugsa það þannig að kannski sé rétt að viðkomandi sjúklingur eigi sérstakan lækni og sá læknir þyrfti ekki endilega að vera heimilislæknir, heldur sérstakur læknir sem viðkomandi sjúklingur byrjar alltaf hjá og leitar síðan annað í kerfið. Það er ein útgáfa af tilvísunarkerfi. Þá gæti viðkomandi krabbameinssjúklingur átt sinn aðallækni sem krabbameinslækni en ekki verið bundinn því að fara fyrst til heilsugæslulæknis áður en hann getur hitt sinn krabbameinslækni.

Ég er einnig spurður að því hversu dýru verði ég vilji kaupa samning við hjartalækna. Hér hafa verið nefndar tölur af formanni Félags hjartalækna að þetta kosti um 14–25 milljónir. (Gripið fram í.) Ef þetta eru upphæðirnar sem út af bar í samningaviðræðunum, (Gripið fram í.) þá eru þetta ekki háar upphæðir. En hæstv. heilbrigðisráðherra segir aðrar tölur. Ég hlakka til að heyra þær.

Ég segi, auðvitað vil ég að menn nái saman. En hvað kemur í veg fyrir að næsta haust, þegar einingarnar klárast hjá öðrum sérfræðistéttum, fari þeir sérfræðingar nákvæmlega sömu leið og hjartalæknar gera núna? Hvað eigum við að gera þá? Þá erum við að festa kerfið enn meira í sessi gagnvart öðrum stéttum, því þetta hefur auðvitað fordæmisgildi. Hvað eigum við þá að gera? Þá erum við búin að kollvarpa öllu okkar kerfi sem gerir ráð fyrir samningssambandi milli Tryggingastofnunar ríkisins (Forseti hringir.) og lækna. Þetta kerfi rýfur það (Forseti hringir.) samband milli Tryggingastofnunar ríkisins og lækna (Forseti hringir.) og það er afturför að mínu mati.