132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki á hvaða leið hv. þingmaður er. Vill hv. þingmaður ekki nefna ákveðna tölu, þ.e. hversu mikils virði sé að semja við hjartalækna? Hjartalæknar hafa nefnt (Gripið fram í.) að þetta einingabil, bæði fyrir nóvember og desember, hafi kostað 14–25 milljónir, að það kosti eitthvað á því bili. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir að þetta sé dýrara. Ég bara hlakka til að heyra mat hæstv. heilbrigðisráðherra á því hvað samningurinn kostar. (Gripið fram í.)

Ég hef alveg svarað skýrt. Ég hefði ekki farið þessa leið sem hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í.) ... Ég hefði reynt að semja, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ég hefði reynt að semja. (Gripið fram í.) Ég hefði ekki búið til kerfi sem hefur þessa galla sem þetta kerfi hefur í för með sér. Það er algjört lykilatriði. Ég hefði samið, já. Ég hefði reynt að fá menn til að ná saman og samið. Það hefur verið gert í fortíðinni. Það hefur tekist. Í hverri einustu kjaradeilu hefur það tekist nema menn setji lög. Þetta er ákveðinn vísir að því. Menn eru búnir að gefast upp á samningsleiðinni og þá er búið til nýtt kerfi sem hefur þessa hættu í för með sér (Gripið fram í.) og það er ég ekki tilbúinn að sætta mig við.

Það er alveg „valid“ og gilt að spyrja spurninga um forgang hinna efnameiri. Vegna þess að (Gripið fram í.) enginn hefur náð að hrekja það að þetta kerfi sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að setja á fót og stjórnarmeirihlutinn virðist styðja býður hættunni heim varðandi mismun eftir efnahag. Enginn hefur getað mælt á móti því að þetta kerfi sem við erum að festa hér í sessi mun gera ráð fyrir að hinir efnameiri geti keypt sig fram fyrir röðina á því verði sem viðkomandi læknir setur upp.

Sú hætta er fyrir hendi núna varðandi heila stétt sem er samningslaus. Sú hætta var ekki fyrir hendi. Það er breyting. Það er grundvallarbreyting á heilbrigðiskerfi okkar. Í okkar kerfi í dag höfum við einn og einn lækni sem ekki hefur verið á samningi. En þetta er í fyrsta skipti sem við höfum heila stétt sem ekki er bundin neinum samningsskilyrðum Tryggingastofnunar og getur sett upp hvaða verð sem hún vill. Það er gjörbreyting og grundvallarbreyting. Því fagna ég þessu tækifæri til að fá þennan áherslumun á milli stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar.