132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:13]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Ástu Möller hvort hún telji að þessi tilraun sem hún telur svona áhugaverða og menn eigi að fylgjast með, þ.e. sú leið sem hæstv. ráðherra fer með að láta Tryggingastofnun greiða fyrir þjónustu lækna sem ekki eru á samningi, standist lög. Hefur hv. þingmaður skoðað hvort reglugerðin sem þessi tilraun byggist á hafi stoð í lögum? Hún byggist að sögn lögfræðinga heilbrigðisráðuneytisins á 36. gr. En þar segir, að almannatryggingarnar skuli greiða nauðsynlegar rannsóknir og meðferð hjá sérgreinalæknum eða stofnunum sem samningur er við. Síðan segir í reglugerðarheimildinni að heimilt sé að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins á heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein. En það byggir auðvitað á því að það sé heilbrigðisþjónusta sem samningur sé um því öll greinin um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginganna byggir á því að samningur sé við þá heilbrigðisstarfsmenn sem almannatryggingar taka þátt í greiða. Reglugerðin sem sú tilraun sem talað er um hér byggir á hefur því ekki stoð í þessum lögum. Ég hef spurt marga lögfræðinga um þetta. Ég er náttúrlega ekki löglærð sjálf. Þeir segja að annaðhvort sé ekki heimild fyrir þessu í lögunum eða að þetta sé á mjög gráu svæði.