132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:15]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur hv. þingmaður það fram yfir mig að hún hefur sjálfsagt bæði reglugerðina við höndina og almannatryggingalögin. Ég get ekki lesið um þetta af mínu blaði, þau álitaefni sem hv. þingmaður velti fyrir sér. Hins vegar rámar mig í að í umræðu í heilbrigðisnefndinni hafi þessi spurning komið upp og embættismenn frá heilbrigðisráðuneytinu svarað í þá veru að sannarlega væri heimild fyrir þessu í lögum, þ.e. ef ég man rétt. Nú virðir hv. þingmaður mér það á betri veg ef mig misminnir. Ég hef það í huganum að í lögunum sé heimild til greiðsluþátttöku ef lög mæla svo fyrir og síðan geti ráðherra líka tekið ákvörðun um það.

Ég hef ekki haft neinar efasemdir um að þessi reglugerð standist lög. Ég tel að við þær aðstæður sem sköpuðust þarna hafi ráðherra nýtt þau tæki sem hann hefur yfir að ráða til þess að tryggja eins vel og hægt er aðgang fólks að þeirri sérfræðiþekkingu sem það þarf á að halda. Ég tel að þessi aðferð hafi verið skynsamleg. Sú aðferð sem reynd hafði verið fram að því, þ.e. að taka ákvörðun eftir á um að greiða fyrir þjónustu sem veitt hefur verið við slíkar kringumstæður, held ég að hafi í raun verið fullreynd. Þegar búið er að prófa þá aðferð einu sinni eða tvisvar er fólk farið að treysta á það og samningsaðilar farnir að treysta á að (Forseti hringir.) svo verði gert aftur. Það er ekki gott.