132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:19]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem við fjöllum um núna kemur fram að styrkja eigi það að greiðsluþátttaka sé heimil, sé slíkt ákveðið með lögum, reglugerðum eða samningum. Ég sagði það í ræðu minni að þetta væri sá skilningur sem hefði verið ríkjandi í samfélaginu hingað til.

Nú vill svo til að hv. þm. Jónína Bjartmarz skaut að mér því skjali sem mig vantaði í umræðuna í fyrri ræðu minni. Í 36. gr. almannatryggingalaga eru taldar upp þær aðstæður eða tilvik sem heimilt er að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Í liðum a til j en þar er m.a. almenna læknishjálp, lyf, tannlækningar, aðstoð ljósmóður, hjúkrun í heimahúsum o.s.frv. Síðan (Gripið fram í.) segir, hv. þingmaður, ef hann vill hlusta:

„Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein og 37. gr. Jafnframt er ráðherra heimilt í reglugerð að ákveða að veita skuli hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir skv. b-lið 1. mgr. hjá öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði en sérgreinalæknum.“ — Þá er einmitt vísað í þá umræðu sem hv. þingmaður tók upp áðan varðandi sálfræðingana.

Ég er ekki löglærð en ég held að ég kunni að lesa lög. Mér sýnist þetta algjörlega kýrskýrt, að þarna sé heimildin til staðar, sem er þá grundvöllur fyrir þeirri reglugerð sem hv. þingmaður spurði um.