132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:15]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að Jónínunefndin hvatti til umræðu um þessi grundvallaratriði því það er óljóst fyrir hvað t.d. kerfi og hugmyndafræði Framsóknarflokksins stendur. Á sama tíma og hann hafnar tvöföldu kerfi er hann að tala fyrir fyrirkomulagi sem býður upp á tvöfalt kerfi og það er ekki rétt hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz að segja að umræðan hafi farið í skotgrafirnar. Samfylkingin talar einfaldlega skýrt. Við hvöttum til að þessi umræða yrði tekin en við höfnuðum tvöfalda kerfinu. Það er það sem Jónínunefndin vildi. Hún vildi að flokkarnir og einstaklingarnir svöruðu þessum grundvallaratriðum. Samfylkingin svaraði mjög skýrt. Mér fannst t.d. Sjálfstæðisflokkurinn ekki tala sérstaklega skýrt. Í ræðum sínum á þeim tíma talaði hann um valfrelsi o.s.frv. og núna sjáum við að hæstv. heilbrigðisráðherra, þingmaður Framsóknarflokksins, talar gegn tvöföldu kerfi en hins vegar býr hún til nýtt kerfi sem býður hættunni heim hvað þetta varðar. Hver er stefna Framsóknarflokksins þegar kemur að þessum stóru grundvallaratriðum sem m.a. Jónínunefndin hvatti til? Þetta kerfi býður upp á mismunun eftir efnahag, bæði hvað varðar aðgengi og síðan hvað þjónustan muni kosta.

Mig langar í seinna andsvari mínu að benda á að grundvallarmunur var á hvernig hv. þm. Jónína Bjartmarz og hæstv. heilbrigðisráðherra nálguðust málið. Hv. þm. Jónína Bjartmarz talaði um að frumvarpið væri m.a. sett fram til að koma í veg fyrir málssókn á hendur ríkinu. En hæstv. heilbrigðisráðherra nálgaðist það þannig að hún væri að veita endurgreiðslurétt til almennings. Þetta er misvísandi skilningur sem þarf að fá ítarlega ræddan í nefndinni.

Mig langar að spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz í lokin: Af hverju telur hún ekki að skynsamlegra hefði verið að fara þá leið sem iðulega hefur verið farin þegar þessi staða hefur komið upp, þ.e. að setja reglugerð sem gildir afturvirkt í staðinn fyrir að fara í einhverja tilraunastarfsemi með almannatryggingakerfið eins og hér er verið að gera.