132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:17]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðunni sem fór fram utan dagskrár um tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustunni svaraði Samfylkingin akkúrat ekki neinu. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar — og meira að segja hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, sem að hluta átti sæti í þessari Jónínunefnd — stóðu hér og héldu því fram að Samfylkingin hafnaði tvöföldu kerfi. Við höfnum forgangi þeirra sem eru efnameiri. Það var aldrei til umræðu. Í hvatningunni til umræðunnar sagði mjög skýrt: Ef þetta þýðir lakari þjónustu fyrir þá sem eru efnaminni þá stendur nefndin ekki að því. Það kom mjög skýrt fram. En menn kusu að lesa helst ekki skýrsluna, gripu það á lofti að það væri vilji einhverra í nefndinni og meira að segja sjálfra sín — og nú horfi ég á fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, a.m.k. varamanninn — kusu að gefa sér að verið væri að leggja til forgang þeirra sem væru efnameiri og svöruðu því svo þannig að þeir höfnuðu því. Samfylkingin svaraði akkúrat ekki neinu.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var spurður fyrr í umræðunni hvað hann hefði gert í sporum heilbrigðisráðherra. Hefði hann samið sama hvað það hefði kostað? Hann gat engu svarað. (Gripið fram í.)

Málið er náttúrlega það að Alþingi hefur á fjárlögum markað þennan ramma. Það er Alþingi sem ákveður rammann, púllíuna sem er til að semja við sérfræðilæknana. Hefði hv. þingmaður í sporum heilbrigðisráðherra gefið það eftir, hvar ætlaði hann þá að taka viðbótarfé þegar aðrir hefðu gert sömu kröfur?

Ég segi, við skulum fara í faglega skoðun á því hvað almannatryggingar eiga að greiða og hvað ekki. Það séu ekki oflækningar og tryggja að þjónustan sé veitt á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar, ekki á of háu stigi og það sé keypt sem faglegar forsendur eru fyrir að kaupa.