132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:06]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér segir hæstv. ráðherra: Það þarf að greiða eðlilega upphæð fyrir eðlilegt magn. Það hefur ekki farið fram nein þarfagreining á því hvað þarf að kaupa mikla þjónustu. Menn hafa ekki verið að vinna heimavinnuna sína í ráðuneytinu. (Gripið fram í.) Nei, þeir hafa ekki gert það. (Gripið fram í.) Þeir hafa ekki unnið heimavinnuna sína, það hefur ekki verið gerð þarfagreining og þess vegna er ekki hægt að segja svona út í bláinn. Ég ítreka það sem þessi hjartalæknir segir. Þegar séð varð að samninganefnd Tryggingastofnunar hafði ekki umboð til breytinga eða lagfæringa á samningum þá óskaði hann eftir því fyrir hönd hjartalækna að fá viðtal við heilbrigðisráðherra. Það viðtal fékkst aldrei þrátt fyrir ítrekaða ósk — gagnvart heilbrigðisráðherra eftir áramótin þegar slitnaði upp úr og samninganefndin hafði ekki umboð frekar. (Gripið fram í.) Það sýnir sig að það var ekki vilji fyrir hendi til að leysa þetta og auðvitað átti að leysa þetta. Ég get ekki séð annað á því sem ég les hér og því sem ég heyri hjá hjartalæknum sem ég hef verið að tala við að það hefði verið hægt að leysa þetta ef vilji hefði verið fyrir hendi. Menn verða svo auðvitað að vinna vinnuna sína í ráðuneytinu og kynna sér hver þörfin er, fara í þá undirbúningsvinnu. Það er ekki hægt að vinna þetta svona út í bláinn.