132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:34]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst skipta máli hvort verið er að tryggja endurgreiðslurétt til sjúklinga, og þá skiptir það í mínum huga ekki máli hvort kerfið gildir í mánuð, tvo mánuði eða heilt ár, hvort verið er að beita neyðarúrræðum eða hvort litið er á þetta sem tilraun sem verði þá að standa einhvern tíma og þá er alveg greinilegt að það á ekki að reyna samninga. Ég held að þetta hljóti að varpa ákveðinni mynd til hjartasérfræðinga líka. Það má túlka orð hæstv. ráðherra á þann veg að búið sé að koma á kerfi til að bregðast við ákveðnum aðstæðum og kerfið komi til með að vera kerfisins vegna. Ekki virðist horft á þær ástæður sem urðu til þess að kerfið var sett á en það þarf að bregðast við þeim og aftengja kerfið og koma þjónustunni í eðlilegt horf aftur eins og hjá öðrum sérfræðingum.

Ef litið er svo á að kerfið feli í sér það miklar breytingar að það þurfi að standa einhvern tíma — ég sé reyndar ekki hvers vegna svo þarf að vera — verður líka samhliða að meta það og vera vakandi fyrir því að hægt sé að taka við tilvísunum frá öðrum læknum eins og t.d. lungnasérfræðingum. Þeir einstaklingar sem finna fyrir lungnaverk geta verið með hjartaverk og öfugt. Ef hugmyndin er sú að þetta standi kerfisins vegna um einhvern tíma þarf að horfa víðar á þetta tilvísunarkerfi.