132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarpið sem hér er flutt er ekki til að tryggja endurgreiðslurétt sjúklinga. (Gripið fram í.) Það hefur verið gert með reglugerð, tryggja endurgreiðslurétt sjúklinga sem fá tilvísun. Það hefur verið farið yfir það nokkrum sinnum hér að meginhugmyndin á bak við frumvarpið er að tryggja að þeir sem aldrei ná sér í tilvísun og fara beint til sérfræðinga án samnings geti ekki þvingað fram endurgreiðslu. Það er hugmyndin með frumvarpinu. (Gripið fram í.)

Varðandi það hvort þetta sé tilraun eða neyð þá er þetta hvorugt, það er engin neyð. Hér er um að ræða viðbrögð við stöðu sem kemur upp, alls engin neyð og þetta er ekki tilraun. Það var ekki ákveðið: Jæja, nú er best að gera tilraun og förum út í þetta. Þetta eru viðbrögð við stöðu sem kom upp þegar samningar náðust ekki og hjartalæknar kusu að ganga af gildandi samningi með sínum þriggja mánaða uppsagnarákvæðum. Með reglugerðinni er verið að bregðast við og tryggja endurgreiðslurétt sjúklings en með frumvarpinu er verið að tryggja að ríkið þurfi ekki að borga ef fólk fær sér ekki beiðni en fer beint til hjartalækna. Þannig liggur þetta mál. Ekki er verið að koma þessu kerfi á kerfisins vegna. Þetta eru viðbrögð vegna stöðu sem kemur upp. En þetta eru talsverðar breytingar og það er eðlilegt þegar breytingar af þessu tagi eru gerðar að þær standi um einhvern tíma. Ég veit ekki hvað það er langur tími (Gripið fram í.) en það er a.m.k. ekki hægt þegar svona staða kemur upp, að ekki gengur saman, að setja á tilvísunarkerfi í einhverja daga. Það væru ómögulegir samningar.