132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:38]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að ítreka nokkrar spurningar sem stóðu út af gagnvart hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra var spurð um þessar samningsskyldur sem verða ekki fyrir hendi í núverandi kerfi, hvað verður um þær? Mig langar einnig að ítreka þá spurningu hvort það felist virkilega einhver stýring í þessu kerfi í ljósi þess að hæstv. heilbrigðisráðherra stýrir ekki eftirspurninni. Verði ákveðið að hafa pottinn, kvótann eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kallar það, 100 millj. kr., síðan byrjar að saxast á þessar 100 millj. og hvað gerist í lok árs? Ég sé ekki alveg hvernig stýringin fæst með þessu kerfi umfram það sem er í dag því að eftirspurnin mun væntanlega stjórna því svo framarlega sem við skilgreinum ekki þörfina.

Ég held að það skíni líka í gegn að það kerfi sem búið er að setja á fót mun drepa allan hvata til að semja enda segir hæstv. heilbrigðisráðherra beint út að það standi ekki til að semja. Enginn fundur hefur verið haldinn síðan þessu kerfi var komið á. Það fer í bága við það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan að meginreglan ætti að vera samningur við viðkomandi stétt. Sú regla virðist ekki gilda lengur, ekki eftir því sem hæstv. ráðherra nálgast tilgang þessa frumvarps. Fyrst var það til að tryggja endurgreiðslurétt almennings en nú er það til að koma í veg fyrir málskotsmöguleika hinna sem fara án tilvísunar. (Gripið fram í.)

Það er kallað að Samfylkingin hafi ekki lausn. Það er lausn að semja og fyrrverandi heilbrigðisráðherrar hafa alltaf samið. Hæstv. heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir er fyrsti heilbrigðisráðherrann sem nær ekki að semja við sérfræðilækna með þessum hætti. Það er algerlega nýtt. Hún kallar þetta nýtt kerfi og miklar breytingar, ég get tekið undir það. Þá langar mig í lokin að spyrja: Verður ekki alveg tryggt að heilbrigðisnefndin fái nægan tíma til að vinna þessa vinnu og hitta hagsmunaaðila og að þeim verði gefinn rúmur tími til umsagnar?