132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:38]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þessi geðvonska Vinstri grænna er í rauninni alveg óskiljanleg og er leiðinleg sumarkveðja frá þeim. Hvað er það sem veldur þessu upphlaupi þeirra núna? Það er að fá ekki umræðu um efnahagsmál.

Frú forseti. Það hefur varla liðið sú vika án þess að færi fram umræða um efnahagsmál. Vextir of háir, vextir of lágir, gengi of hátt og gengi of lágt eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Hér er stöðug umræða um efnahagsmál og samt koma fulltrúar Vinstri grænna hér froðufellandi af bræði yfir að sú umræða fari ekki fram.

Ég hélt að hv. formaður Vinstri grænna kæmi upp til að lýsa yfir ánægju með að einn af fremstu hagspekingum heimsins lýsti því yfir í gær að íslenskt efnahagslíf stæði mjög traustum stoðum og væri í stakk búið til að taka skyndiáföllum og grunnurinn í efnahagslífi okkar væri traustur. En sá ágæti maður sagði meira, hann sagði að menn gætu kjaftað sig upp í verðbólgu, menn gætu kjaftað efnahagslífið niður og það skyldi þó ekki vera, frú forseti, að þessi stöðugi neikvæði tónn stjórnarandstöðunnar sé farinn að vigta inn í verðbólguna? Þess vegna styð ég forseta í því verðbólgunnar vegna að efna ekki til þessarar umræðu enn einu sinni í dag.