132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er greinilega kátína í salnum og þingmenn væntanlega innst inni hálffegnir því að fá að sleppa út í vorblíðuna og eiga nokkra daga með kjósendum fram að mánaðamótum og ekki nema gott eitt um það að segja. Ég hygg þó, virðulegi forseti, og vil fá að lýsa þeirri skoðun minni og skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að það hefði verið betri bragur á því að við hefðum lokið þessu með eldhúsdagsumræðum eins og áætlun hljóðaði upp á og hefur gert í allan vetur, að við hefðum lokið þingstörfum nú á vordögum með því að efna til eldhúsdagsumræðna sem hefði verið útvarpað og sjónvarpað. Ég hygg að hefði gefið þinginu miklu betri svip að standa við það. Þá hefði okkur gefist gott tækifæri til að ræða þau málefni sem brenna hvað mest á þjóðinni og það eru ekki þau mál sem við höfum verið að ræða undanfarna daga, það er ég alveg sannfærður um. Það eru að sjálfsögðu efnahagsmálin. Ríkisstjórnarliðar geta ekki sópað því undir teppið að það hefur heldur betur dregið ský fyrir sólu í þeim málefnum á undanförnum vikum og mánuðum. Ég verð að segja að ég fæ ekki alveg séð að ástandið sé svo ofboðslega bjart og þar sé sumar og sól fram undan, því miður.

Þar af leiðandi hygg ég að það hefði verið gott tækifæri fyrir okkur öll að ræða einmitt þau málefni í kvöld fyrir augliti þjóðarinnar. Það hefði verið góður bragur á því fyrir þingið, góður bragur á því fyrir okkur öll sömul. Þar fyrir utan óska ég þingheimi öllum sem og þeim sem eru að horfa, gleðilegs vors.