132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:44]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að þetta er algerlega óskiljanleg geðvonska sem kemur hér fram yfir því að við skulum ætla að hætta störfum í dag. Það er auðvitað þannig að við höfum verið að ræða mjög mörg merkileg mál í vetur en, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði, kannski ekki nákvæmlega þau mál sem brenna á þjóðinni. En stjórnarandstaðan hefur hins vegar séð mikla ástæðu til þess og sérstaklega sér hv. þm. Ögmundur Jónasson mikla ástæðu til að ræða þau mál sem kannski brenna ekkert sérstaklega á þjóðinni en við, stjórnarmeirihlutinn hefðum viljað ræða þau mál. Og það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að auðvitað ber stjórnarmeirihlutinn ábyrgð á þinginu en við berum ekki ábyrgð á því málþófi sem stjórnarandstaðan stendur fyrir um hin aðskiljanlegustu mál sem eru fullunnin í þinginu og væri full ástæða til þess að ljúka og við gætum haldið áfram með þau mál sem einhverju skipta. (Gripið fram í.) Við höfum, hv. þingmaður, ekki eytt löngum tíma í sölum Alþingis í að ræða það mál, það höfum við ekki gert. En hins vegar hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki slegið slöku við að halda uppi málþófi um þau mál sem eru fullrædd og þyrfti ekki að eyða tíma í í þingsölum. En við gætum svo sannarlega rætt efnahagsmál ef tímanum hefði ekki verið svona illa varið, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni.

Hæstv. forseti. Ég held að nú eigum við að fara heim í góðu skapi og takast á við sveitarstjórnarkosningarnar með kollegum okkar og engin ástæða sé til að vera í þessu fýlukasti hér nú.