132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Starfsáætlun þingsins er búin að vera í fullkomnu uppnámi nú um skeið. Meiri hlutinn á Alþingi hefur gersamlega tekið einhliða stjórn þingsins í sínar hendur og ekki haft nokkurt samráð við stjórnarandstöðuna um framgang þingstarfa. Í gær er tekin sú einhliða ákvörðun af hálfu meiri hlutans að senda þingið heim vegna þess að meiri hlutinn hefur ekki dug og þor til að standa áfram og reka mál sín.

Hér hafa á undanförnum dögum verið rekin af hörku af hálfu stjórnarmeirihlutans gæluverkefnin, einkavæðingarverkefnin, einkavæðing Ríkisútvarpsins, einkavæðing Landhelgisgæslunnar, einkavæðing flugmála, flugmálastjórnar og flugvalla í landinu, einkavæðing ÁTVR. (Gripið fram í: Þetta er hlutafélagavæðing.) Þetta hafa verið gæluverkefnin sem ríkisstjórnin hefur keyrt fram og breytt allri starfsáætlun þingsins fyrir mál sem lúta að kjörum fólks, ellilífeyrisþegum, öryrkjum, láglaunafólki, starfsfólki á heilbrigðisstofnunum, starfsfólki á elliheimilum og hjúkrunarheimilum sem eru svo skammarlega lág að erfitt er orðið að halda þeirri starfsemi eðlilega uppi og að þetta fólk hafi mannsæmandi kjör. Þessi mál skulu víkja fyrir einkavæðingarmálunum og nú þegar ríkisstjórnin sér hversu almenningur í landinu er andvígur þessum einkavæðingarfrumvörpum þá velur ríkisstjórnin að fresta þinginu og ætlar sér svo að taka þessi hryllilegu mál sem almenningur er fullkomlega á móti upp í júní. Þetta er mikill skarpleiki, frú forseti, af hálfu meiri hlutans.