132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:54]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins áðan að mörg mál sem væru samkomulagsmál væri ekki hægt að afgreiða og að mér skildist vegna frammistöðu stjórnarandstöðunnar. Ég vil taka fram að það hefur ekki verið rætt á fundum formanna þingflokka að taka samkomulagsmál og afgreiða áður en við færum í þetta nauðsynlega hlé sem nú er. Ég vil nefna sem dæmi réttindi samkynhneigðra, mál sem er alger samstaða um. Það hefur ekkert verið um það rætt að við afgreiddum það núna.

Í dag er verið að afgreiða þrjú mál í nefnd eftir 1. umr. Þingi átti samkvæmt starfsáætlun að ljúka í dag. Hér er 4. mál á dagskrá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, þ.e. 1. umr. ef leyfð verður, og við höfum boðið það fram að ef tryggt er að það sé ekki á nokkurn hátt verið að breyta kjörum þeirra starfsmanna sem þar eiga í hlut verði málið afgreitt í dag. Við höfum sýnt fullan samstarfsvilja. Og framhaldsskólarnir, 5. mál á dagskrá, sem við vildum gjarnan sjá afgreitt og þau eru mörg önnur sem við viljum sjá afgreidd.

Hæstv. forseti hefur lagt sig fram um að raða niður á dagskrá þannig að við gætum lokið þeim málum sem samkomulag er um. En hvað gerist þá? Ríkisstjórnin hefur dælt inn nýjum frumvörpum og auðvitað stöndum við hér, okkur ber skylda til þess, þegar lögð eru fram frumvörp sem eru þvílík hrákasmíði að lítill sómi er að fyrir ríkisstjórnina, þá stöndum við hér til að vekja athygli á því og við viljum að nefndir taki þann tíma sem til þarf til að ljúka málunum þannig að þau séu vel ígrunduð þegar þau koma til lokaafgreiðslu.