132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:03]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem lagt hefur verið fram sem þskj. 1244 en þetta er mál nr. 795 á þessu löggjafarþingi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem greitt hafa fyrir því að mál þetta kæmi á dagskrá þessa fundar.

Frumvarp þetta á sér skamman aðdraganda eins og flestum er kunnugt en Bandaríkjamenn tilkynntu ríkisstjórn Íslands 15. mars sl. að dregið yrði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Bandaríkjamenn hafa í kjölfarið sagt upp öllum íslenskum starfsmönnum sínum á Keflavíkurflugvelli, rúmlega 600 talsins og lýkur ráðningarsamningum þeirra starfsmanna sem lengstan uppsagnarfrest hafa 30. september í haust. Vegna þessara fyrirætlana og aðgerða Bandaríkjamanna þurfa íslensk stjórnvöld að gera ráðstafanir sem fyrst til að taka yfir þá starfsemi sem tilheyrir rekstri flugvallarins sjálfs og sem Bandaríkjamenn hafa annast til þessa.

Með þessu lagafrumvarpi hefur verið valin sú leið að fela Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, sem er stofnun sem þegar er fyrir hendi, að taka að sér þau flugtengdu verkefni sem Bandaríkjamenn hafa annast á Keflavíkurflugvelli á grundvelli varnarsamningsins. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að meginmarkmiðið með frumvarpinu er að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar og snurðulausan rekstur hans þrátt fyrir að breyting verði á því hvaða aðili annist þá tilteknu rekstrarþætti sem hér um ræðir.

Ég vil einnig minna á að Keflavíkurflugvöllur er afkastamesta samgöngumannvirki landsins og mikilvægasti tengipunktur Íslands við önnur lönd. Keflavíkurflugvöllur er alþjóðlegur flugvöllur og hátæknivinnustaður. Þar starfar fólk með yfirgripsmikla þekkingu, menntun og réttindi sem nauðsynleg eru til að tryggja starfsemi flugvallar af þessu tagi og virkni tæknibúnaðar þar. Sú menntun og færni er vottuð af ýmsum alþjóðlegum stofnunum og fyrirtækjum.

Uppsagnir starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, þar með margra sem starfa að málefnum flugvallarins geta leitt til þess að vel menntað og þjálfað starfsfólk hverfi af starfssvæðinu. Með frumvarpi þessu er leitast við að fyrirbyggja að ófremdarástand skapist samfara hugsanlegu brotthvarfi lykilstarfsfólks. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er þess vegna að finna heimild til að ráða án auglýsingar þá starfsmenn varnarliðsins sem nauðsynlegir eru til að tryggja áframhaldandi snurðulausan rekstur Keflavíkurflugvallar.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt að framan vil ég greina frá því hver meginatriði þessa frumvarps eru:

1. Kveðið er með skýrum hætti á um það í lögum að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sé sérstök stofnun sem annist stjórnun, rekstur og uppbyggingu flugvallarins. Stofnunin hefur til þessa starfað á grundvelli reglugerðar frá árinu 1964, nánar tiltekið reglugerðar nr. 297/1964, sem sett var með stoð í lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

2. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Flugmálastjórn Íslands annist eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli og er þetta gert til að fyrirbyggja hagsmunaárekstra þar sem ekki er eðlilegt að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi eftirlit með sjálfri sér hvað þetta varðar.

3. Sérstökum flugvallarstjóra er ætlað að stjórna starfsemi og rekstri stofnunarinnar og er það í samræmi við það sem tíðkast hefur hingað til.

4. Það nýmæli er að finna í lögunum að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er falið að bera ábyrgð á því að starfrækt sé slökkvilið á Keflavíkurflugvelli. Frumvarpið opnar þá einnig á þann möguleika fyrir flugmálastjórn vallarins að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hygg ég að ýmsir athyglisverðir möguleikar geti verið fyrir í hendi í því efni.

5. Í frumvarpinu er kveðið á um það að eftir því sem við verður komið skuli bjóða því starfsfólki varnarliðsins sem sinnt hefur ákveðnum flugtengdum verkefnum á árinu 2006 störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Þessar einingar hafa allar sinnt verkefnum sem sinna þarf áfram á flugvellinum þrátt fyrir brotthvarf varnarliðsins. Þessi störf verða undanþegin auglýsingaskyldu og byggir sú undanþága á augljósum sanngirnisrökum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er meginmarkmiðið með frumvarpinu að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar og snurðulausan rekstur flugvallarins. Yfirtaka Íslands á þeim flugtengdu verkefnum sem varnarliðið hefur annast til þessa mun óhjákvæmilega hafa í för með sér aukin útgjöld ríkisins. Áætlað er að útgjöld geti aukist um allt að 1,4 milljarða vegna launa- og rekstrarkostnaðar en árétta verður að áætlun þessi er háð verulegri óvissu.

Einnig er rétt að geta þess að áætlaður stofnkostnaður, 4,3 milljarðar kr., miðast við nýbyggingar og kaup á nýjum búnaði en eins og ég gat um áðan er samningaviðræðum við Bandaríkjamenn enn ólokið og fjölmargir óvissuþættir enn þá til staðar varðandi framtíðarnotkun tækja og búnaðar á vellinum.

Ég legg ríka áherslu á það, virðulegi forseti, að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar fái ráðgert svigrúm til að takast á við hin auknu verkefni sín. Sérstaklega er mikilvægt að stofnunin fái svigrúm að því er varðar ráðningar á lykilstarfsfólki úr hópi starfsmanna varnarliðsins. Lykilatriðið er að tryggja rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar, þjóðarflugvallar okkar þannig að sómi sé að og öryggi í flugsamgöngum okkar Íslendinga sé ávallt tryggt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.