132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:14]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála því að það er mjög mikilvægt að þeirri óvissu verði aflétt sem ríkir nú varðandi framtíð á Keflavíkurflugvelli og þá kannski ekki síst varðandi framtíð þeirra starfsmanna sem þar eru. Þetta frumvarp nær yfir ansi marga menn. Hér er verið að tala um u.þ.b. 150 starfsmenn sem að sjálfsögðu eru nokkuð uggandi um hag sinn núna. Ég hygg og trúi því í fullri einlægni að þegar þetta frumvarp verður að lögum muni það á vissan hátt eyða óvissu um framtíð fjölmargra af þessum ágætu starfsmönnum. Það kemur fram í þessu frumvarpi að þarna er falinn mjög mikill mannauður. Þarna er fyrir hendi mjög mikil þekking sem hefur orðið til í áranna rás, þekking varðandi rekstur svona flugvallar, svona mikils samgöngumannvirkis. En við megum þó ekki gleyma því, virðulegi forseti, að sennilega mun það verða svo að einhverjir muni falla á milli tveggja stóla, ef svo má segja, og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það í dag og gleymum því ekki í umræðunum í dag að við þurfum að leysa úr vandkvæðum þeirra sem ekki munu fá vinnu áfram við Keflavíkurflugvöll. Ég býst fastlega við því að málefnalegar umræður geti spunnist um það í dag því ég tel mjög mikilvægt að við gleymum þessu fólki ekki.