132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:19]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar skuli komið fram þannig að hægt sé að bregðast við þeim vanda sem óneitanlega hefur komið upp við það að varnarliðið hefur sagt upp flugvallarstarfsmönnum á Keflavíkurflugvelli. Að vísu er frumvarpið svolítið seint fram komið og lítill tími gefst til afgreiðslu en ég held þó að nauðsynlegt sé að taka það á dagskrá, eins og afbrigðin gefa til kynna og allir þingmenn sem hér voru í salnum töldu, til að hægt verði að taka á þessu sem fyrst.

Það er mjög mikilvægt að óvissu varðandi starfrækslu Keflavíkurflugvallar og störf þeirra manna sem þar starfa ljúki. Þetta frumvarp er lagt fram til að enda óvissuna og eins og ég sagði, betra seint en aldrei.

Frumvarpið tekur líka á nokkrum öðrum atriðum. Það kemur fram í 1. gr. að utanríkisráðherra ákveður hvar aðsetur þessarar stofnunar skuli vera og mér þætti vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað því á eftir hvort einhverjar hugmyndir séu uppi um það hvar aðsetur stofnunarinnar eigi að vera. Eins kemur fram að utanríkisráðherra muni setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um skipulag og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og virðist vera ansi opið í frumvarpinu hvað á að vera í þeirri reglugerð og því væri gott að fá að heyra einhverjar hugmyndir um það.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sé heimilt að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðs á Keflavíkurflugvelli. Ég veit að heimamenn eru fullir áhuga á að eiga viðræður við utanríkisráðuneytið um rekstur slökkviliðsins og menn eru jafnvel tilbúnir til þess að horfa talsvert víðar yfir það svið til að tryggja faglegan og góðan rekstur á slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Lögin öðlast gildi 1. júní 2006 fyrir utan ákvæðið til bráðabirgða en ákvæðið til bráðabirgða kveður á um að eftir því sem við verði komið skuli bjóða því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá þeim deildum varnarliðsins sem taldar eru upp í frumvarpinu en þær eru slökkviliðið, snjóruðnings- og brautadeildin, rafeindadeildin, voltadeildin og verkfræðideildin. Hvað orðalagið „eftir því sem við verður komið“ þýðir væri gott að fá svar við. Ég sé það í athugasemdum við frumvarpið að talað er um að þeir sem starfað hafa á árinu 2006 við þessi störf hafi forgang til þessara starfa og vona ég að það sé réttur skilningur.

Það segir í ákvæðinu til bráðabirgða að flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli undirbúi og annist ráðningar í framangreind störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra heyrir þetta undir utanríkisráðuneytið þó að menn sjái það kannski fyrir sér í framtíðinni að þessi rekstur eigi frekar heima undir samgönguráðuneytinu og því er væntanlega kveðið á um það að hafa þurfi samráð við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Það er undanþága í frumvarpinu frá því að þurfa að auglýsa þessi störf eins og ráð er fyrir gert í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tel ég alveg eðlilegt að menn horfi til þess að hér eru sérstakar aðstæður uppi og nauðsynlegt að snúa sér þannig í því að þeir sem nú vinni þessi störf hafi forgang að þeim störfum. Ég tel að við getum litið á það sem er að gerast þarna á flugvellinum með svipuðum hætti og aðilaskipti að fyrirtækjum. Það er í raun og veru óbreyttur rekstur í gangi áfram en nýr aðili tekur við fyrirtækinu og rekstri þess. Við eigum lög um aðilaskipti að fyrirtækjum og mér leikur forvitni á að vita hvort menn munu ekki horfa til þeirra laga þegar metið verður með hvaða hætti þessir starfsmenn komast á nýja ráðningarsamninga hjá nýjum vinnuveitanda.

Segja má að forsendan fyrir því að taka þetta mál og afgreiða það hratt og vel á þinginu sé að þeir sem þarna starfi hafi tryggingu fyrir því að kjör þeirra muni ekki skerðast og réttindin ekki heldur eftir að þeir eru ráðnir hjá nýjum aðila, eins og lög um aðilaskipti gera ráð fyrir. Því langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur að þessi bráðabirgðaaðgerð, eins og hæstv. ráðherra lýsti þessu áðan, til að tryggja snurðulausan rekstur á Keflavíkurflugvelli muni fara fram með þeim hætti að þeir sem nú starfa við þessi störf hafi þar ákveðin kjör, hafi þar ákveðin réttindi, veikindarétt o.s.frv., og að ekki séu uppi hugmyndir um að skerða í neinu þann rétt. Mér finnst það grundvallaratriði í þessu máli þegar við tökum það fyrir og afgreiðum það svona hratt að fyrir liggi að ekki sé um það að ræða að skerða eigi kjör.

Annað sem menn hafa velt fyrir sér og vekur ákveðnar áhyggjur er að varnarliðið hefur tekið reglulega saman skýrslur um heilsufar starfsmanna og er spurning hvað verður um þessar skýrslur við aðilaskiptin. Munu þessar skýrslur fara í hendur heilbrigðisyfirvalda eða mun þeim verða eytt? Það hlýtur að vera mikilvægt að þessar skýrslur sem til eru um heilbrigðisástand starfsmanna hjá varnarliðinu liggi ekki á glámbekk og fari ekki á flakk.

Í viðtali við hæstv. utanríkisráðherra í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að það sé brýnt að eyða óvissu starfsfólksins og afgreiða frumvarpið nú eða eigi síðar en eftir sveitarstjórnarkosningar, eins og hæstv. ráðherra segir í viðtalinu við Fréttablaðið í morgun. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að afgreiða þetta frumvarp nú og það geti ekki beðið fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Meginástæðan fyrir því í mínum huga er sú að það er ekki boðlegt að bjóða starfsmönnum sem búið er að segja upp, og margir hverjir eiga að hætta störfum um mánaðamótin maí/júní eða 31. maí, upp á það að þeir þurfi að bíða eftir því fram á síðasta dag í uppsagnarfresti sínum, þótt búið sé að leggja fram frumvarp og taka um það 1. umr., hvort þetta verði að lögum og hvort hægt verði að ráða þá á þeim kjörum sem hér er talað um. Því tel ég mjög mikilvægt að þetta verði afgreitt núna áður en hlé verður gert og lýsi því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að við erum tilbúin til þess að gera það að uppfylltum þeim fyrirvara sem ég nefndi áðan, að ekki sé um það að ræða að verið sé að skerða kjör þessara manna. 13 af 14 starfsmönnum sem sinnt hafa hreinsun og eftirliti á flugbrautum eru með uppsagnarfrest sem rennur út 31. maí. Ef við náum ekki einhverra hluta vegna að klára þetta mál og ráða þessa menn aftur til starfa eða þeir færu vegna þess hve stutt er eftir af uppsagnarfresti þeirra, ef við ætlum að draga það að afgreiða málið misstum við þarna verulega mikla sérþekkingu og starfsreynslu sem þessir menn hafa.

Að endingu, frú forseti, þætti mér vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað þeim spurningum sem ég hef lagt fram og þá fyrst og fremst og sérstaklega spurningunni um kjör starfsmanna.