132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ljóst að gera þarf ráðstafanir vegna yfirtöku okkar Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og hefði svo sem mátt vera betur undirbúið, því að það hefur legið nokkuð ljóst fyrir, a.m.k. að mínu mati, undanfarin ár að að því drægi. Ég hef flutt tillögur um það í þinginu undanfarin allmörg ár að undirbúnar yrðu ýmsar ráðstafanir sem tengdust þessum óumflýjanlegu og gleðilegu tímamótum. Það hefur einkum verið tvennt sem blasað hefur við að takast þyrfti á við, þ.e. annars vegar það sem lýtur að yfirtöku rekstrarins þarna og hins vegar það sem lýtur að viðskilnaði Bandaríkjamanna, að þeir hreinsi upp ruslið eftir sig o.s.frv.

Hæstv. utanríkisráðherra kemur hér með frumvarp sem getur varla kallast annað en bráðabirgðaráðstöfun og hæstv. ráðherra má eiga það að hann dró ekki dul á að þetta væri í raun og veru bráðabirgðaráðstöfun eða redding eins og það heitir á talmáli. (Utanrrh.: Fyrir norðan?) Ja, það heitir það víðar á landinu, hygg ég, hæstv. ráðherra, eða að verið sé að bjarga í horn, ef hæstv. ráðherra kann það tungutak betur, með þessu frumvarpi. Ég geri engar athugasemdir við það að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði falið þetta verkefni til bráðabirgða a.m.k.

Hitt er svo annað mál og það hugðist ég einmitt gera að umtalsefni sem reyndar kom aðeins inn í orðaskipti í andsvörum og svörum áðan að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það væri auðvitað alveg út úr kú að eitt mikilvægasta og í raun má segja mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar heyrði ekki undir samgönguráðherra og það hefur auðvitað ekkert verið annað en viðkvæmnin gagnvart Kananum sem hefur valdið því. Þegar flugstöðin var í byggingu á sínum tíma hreyfðum við þeim sjónarmiðum að að sjálfsögðu ætti að færa byggingarsvæðið út fyrir eða endurskilgreina svokölluð varnarsvæði þannig að flugstöðin gæti verið borgaralegt samgöngumannvirki. En menn voru nú að mjólka kúna og Kaninn átti að borga í þessu 40% eða hvað það nú var eða 60, en reyndist talsvert minna þegar upp var staðið vegna þess að það var föst upphæð. Síðan fór hönnunar- og byggingarkostnaður upp úr öllu valdi og Íslendingar sátu eftir með þann skell og það má færa að því rök að við hefðum jafnvel komist af með minni fjármuni ef við hefðum afþakkað þetta framlag frá Kananum, byggt þessa flugstöð sjálfir og hannað hana eftir okkar þörfum. En menn muna það kannski hversu fáránleg sóun af ýmsu tagi var fólgin í stöðlunum sem Kaninn þvingaði inn í bygginguna og því að taka mið af stöðlum hersins. Menn geta séð ef þeir skoða bygginguna grannt þá er þar ýmis fáránleiki sem alls ekki á erindi inn í íslensk mannvirki og íslenskar aðstæður eins og einangrun á frárennslisrörum, rakagildrur, engissprettugildrur í niðurföllum og annað í þeim dúr sem ég hef ekki heyrt að mikil þörf sé fyrir á Íslandi.

Þetta mannvirki og þessi starfsemi í heild sinni á auðvitað að vera hjá samgönguráðherra, (Gripið fram í.) að sjálfsögðu. Þar erum við hæstv. utanríkisráðherra þá hjartanlega sammála og ég vona að hæstv. ráðherra undirbúi þær breytingar eða þeir í samstarfi hæstv. samgönguráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Það er ekki eftir neinu að bíða með það. Þessi arfleifð hersetunnar sem mikilvægt er að afmá eins hratt og mögulegt er í öllu tilliti á auðvitað að fara á öskuhauga sögunnar með þessu tímabili eins og það leggur sig.

Frú forseti. Það er freistandi að minnast aðeins á stöðu málsins að öðru leyti og þar vil ég bara segja að að mínu mati hefur ríkisstjórnin staðið illa að viðræðum við Bandaríkjamenn um brotthvarf þeirra og höfum misst það mál inn í afar óheppilegan farveg. Í stað þess að stilla Bandaríkjamönnum upp og gera til þeirra kröfur þá er setið og beðið eftir tillögum af þeirra hálfu um framtíðarfyrirkomulag mála í Keflavík. Auðvitað blasir það við hverjum manni og það heyrir maður umsvifalaust ef maður fer um á Suðurnesjum nú að hagsmunirnir eru fólgnir í því að losna við Kanann fyrir fullt og allt endanlega og hreint og gera málin upp, fá svæðið og aðstöðu og mannvirki yfir til borgaralegra nota og geta óhindrað farið að spila úr þeim möguleikum sem þar opnast. Það væri versta niðurstaðan af öllum mögulegum ef þarna héngi áfram einhver óvissa yfir vötnunum og við gætum t.d. ekki gengið í að endurskipuleggja málin þarna á hreinu borði.

Það hefur líka verið staðið ákaflega sleifarlega að fleiri þáttum og það var alveg undarlegt að sjá að það dróst um vikur og aftur vikur að ríkisstjórnin gæti skipað samráðsnefnd með heimamönnum sem þó hafði verið lofað. Hæstv. ráðherrar spýttust til Suðurnesja og héldu stórfundi í Stapanum, a.m.k. framsóknarmenn og þá stóð ekki á því að þeir færu suður eftir. En svo liðu margar vikur og ekkert gerðist í framhaldinu. Ástandið gagnvart starfsmönnunum sem þarna eiga í hlut er þannig að þeir eru búnir að ganga með uppsagnarbréf upp á vasann vikum eða jafnvel mánuðum saman en það hefur ekkert verið við þá talað. Slökkviliðsmennirnir t.d. segja manni þá sögu að þeir hafi bara gengið með uppsagnarbréfið upp á vasann og verið í algerri óvissu um það sem við tekur. Það er vissulega til bóta að fá þó þetta frumvarp og gera það að lögum og það opnar möguleika á að endurráða þá og það er vel og þess vegna munum við greiða götu þess en staðan hefur hins vegar ekki verið forsvaranleg. Þeir hafa t.d. ekki notið sömu kjarabóta og aðrir slökkviliðsmenn í landinu vegna þess að þeir hafa enn verið undir því launaþaki sem varnarliðið þvingaði einhliða fram gagnvart starfsfólki sínu. Auðvitað hefur þessi staða alls ekki verið forsvaranleg.

Það síðasta, frú forseti, sem ég ætla að hnykkja á eða gera að sérstöku umtalsefni er nauðsyn þess og mikilvægi að menn vandi sig gagnvart starfsfólkinu sem þarna á í hlut og ræði við það og samtök þess og vinni alla þessa hluti í samráði við samtök starfsmanna. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að svo verði gert.

Ákvæði til bráðabirgða kemur inn á þetta sérstaklega. Orðalagið þar er kannski ekki endilega það sem maður hefði helst kosið en þar segir í 1. mgr. að eftir því sem við verði komið skuli bjóða því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá eftirtöldum deildum varnarliðsins o.s.frv. Hvað þýðir orðalagið þarna „eftir því sem við verði komið“? Getur hæstv. utanríkisráðherra farið aðeins betur yfir það og hvers vegna þarf að orða þetta svona? Er ekki ljóst að í raun og veru er einfalt mál að bjóða öllum sem það vilja endurráðningu? Þarf ekki allt þetta starfslið til að reka völlinn? Eða ekki ætla menn að fara að fækka frekar en nú er, t.d. í brautarþjónustunni? Um hvað hefur umræðan verið síðustu árin? Að Kaninn hefur sagt upp svo mörgu fólki að þetta er komið niður í alger lágmörk, jafnvel hvað varðar öryggismörk, það mannahald sem þarna er til staðar í dag. Um það hefur umræðan verið. Þess vegna vekur það undrun að ekki skuli ósköp einfaldlega vera hægt að segja: Allir þeir sem þess óska skulu eiga kost á endurráðningu hjá flugmálastjórn, og það er vel réttlætanlegt við þær aðstæður að víkja til hliðar eins og þarna er gert með síðasta málslið bráðabirgðaákvæðisins, ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, þ.e. skyldunni að auglýsa störf. Við þessar sérstöku aðstæður hygg ég að enginn verði til að hreyfa andmælum við því þannig að unnt sé að ganga frá þessum málum fljótt og vel gagnvart starfsmönnum og þeir sem þess kjósa eigi ósköp einfaldlega rétt á endurráðningu. Það kann vel að vera og er líklegt að einhverjir séu þannig staddir á spori að þeim henti að láta bara af störfum sökum aldurs t.d. við þessi tímamót og gott og vel. En ég spyr: Er ekki útlátalaust að gera þetta þannig úr garði að allir eigi þennan rétt sem þess óska? Það hefði ég helst kosið að væri, frú forseti.

Ég á þess kost að fara aðeins yfir málið á nefndarfundi sem hér verður væntanlega skotið inn á milli umræðna og skal þess vegna tímans vegna ekki hafa þessi orð fleiri.