132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:54]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki kann ég að nefna hvað leið er tæknilega skynsamlegust, ég hef ekki þá þekkingu, en ég fagna því auðvitað þegar menn tala tæpitungulaust. Það hefur Frjálslyndi flokkurinn gert í Reykjavík. En aðrir flokkar hafa a.m.k. gefið það afar sterklega í skyn að það komi að því að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Hvar hann lendir þá hef ég ekki tæknilega þekkingu eða forsendur til að meta. En ég fagna því að félagar mínir í Framsóknarflokknum í Reykjavík vilji skoða Lönguskerjaleiðina sem eina leið og athuga hvort ná megi þjóðarsátt um hana. Ég er ekki viss um að sú sátt náist.

Hins vegar eigum við ekki að skoða þetta út frá þröngum sjónarmiðum einstakra kjördæma heldur hljótum við að skoða þetta á landsvísu. Ef sú staða kæmi upp að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni verðum við að spyrja okkur að því hvar hagkvæmast væri fyrir okkur sem þjóð að setja þennan flugvöll niður. (Gripið fram í: Á Egilsstöðum.) Þar tek ég undir með hæstv. samgönguráðherra sem sagði á opnum fundi í Reykjanesbæ í vetur að ef til þess kæmi að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni teldi hann skynsamlegast og hagkvæmast að nýta flugvöllinn í Keflavík á sama tíma og verið er að gera samgöngubætur á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins með tvöföldun Reykjanesbrautar. Ég árétta þá enn frekar hugmyndir sem menn hafa bent á að byggja göng úr Straumsvík og yfir í Kvosina sem gerði það að verkum að menn væru ekki nema u.þ.b. 20 mínútur að keyra úr miðbæ Reykjavíkur og til Keflavíkurflugvallar. Það er ekki þar með sagt að allir sem ferðast í innanlandsflugi eigi endilega erindi í miðbæinn, miðja höfuðborgarsvæðisins er nú komin í Kópavoginn og fjölmargir utan af landi eiga líka erindi til útlanda.

Þetta eru auðvitað allt saman kostir sem þarf að skoða en umræðan um það mun væntanlega fara fram í sumar og á ekki beint skylt við það frumvarp sem hér er til umræðu.