132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu í þessari umræðu. Ég tel að hér sé mjög brýnt mál á ferðinni og mikilvægt að við afgreiðum það með hraði í þinginu því eins og ég sagði í andsvari áðan, og hæstv. utanríkisráðherra nefndi líka, er brýnt að eytt sé óvissu um þessi mál og við fáum það á hreint hvernig við ætlum að haga framtíðarskipulagi varðandi rekstur á Keflavíkurflugvelli. Að sjálfsögðu hlýtur hann að fara undir íslenska stjórn og ég hef engar áhyggjur af því að okkur Íslendingum takist ekki að reka þetta mikla samgöngumannvirki með miklum sóma. Eins og ég nefndi áðan er fyrir hendi mjög mikill mannauður og þekking á Suðurnesjum, þekking á því hvernig reka á svona mannvirki, og ég hygg að þeim Íslendingum sem hafa starfað á Keflavíkurflugvelli sé fyllilega treystandi til að sjá um rekstur flugvallarins í framtíðinni.

Það er aðeins eitt sem ég vil leggja áherslu á hér í máli mínu og það er einmitt framtíð þeirra starfsmanna sem unnið hafa á vellinum. Margir hafa unnið þarna mjög lengi og við mjög sérhæfð störf. Mér sýnist í fljótu bragði, og ég vona það svo sannarlega, að flestir muni fá störf áfram við flugvöllinn. Hér er um að ræða u.þ.b. 150 manns og að það verði í heildina 200 manns eða þar um bil sem muni starfa við flugvöllinn. Við vitum að í dag starfa 62 starfsmenn við embætti Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og ég reikna með því að þeir muni halda áfram. Mér sýnist því að einhverjir muni hætta, kannski munu einhverjir hætta við eðlileg starfslok ef svo má segja en hugsanlega mun þurfa að segja einhverjum upp.

Ég kem hér upp til að lýsa þeirri skoðun minni að við Íslendingar eigum að bjóða þeim starfsmönnum sem hætta góða starfslokasamninga. Enda þótt þessir starfsmenn hafi unnið á vegum Bandaríkjahers við rekstur flugvallarins þá lít ég svo á að þetta fólk, og ekki aðeins þetta fólk heldur fólk sem hefur starfað á vegum Bandaríkjahers á Suðurnesjum, hafi verið að starfa fyrir íslensku þjóðina. Starf þess hefur á vissan hátt verið framlag okkar til varnarsamstarfsins og þó að það hafi verið á launaskrá hjá Bandaríkjaher lít ég svo á að það hafi lagt fram mikilvægt vinnuframlag fyrir íslensku þjóðina í öryggis- og varnarmálum landsins. Fari svo að þetta fólk missi vinnuna tel ég að við eigum að gera vel við það. Það er einfaldlega siðferðisleg skylda okkar að sjá til að fólkið geti lokið störfum sínum með fullri reisn og virðingu og þurfi ekki að bera skarðan hlut frá borði.

Varnarsamstarfið er að sjálfsögðu tvíhliða eins og varnarsamningurinn gerir ráð fyrir. Með því hljóta að fylgja bæði réttindi og skyldur, líka siðferðislegar skyldur og við megum alls ekki gleyma þeim þætti við þau vatnaskil sem verða í varnarmálum okkar Íslendinga nú þegar Bandaríkjamenn fara héðan í haust.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram en ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég ætla ekki að tefja fyrir því að þetta frumvarp nái fram að ganga og hljóti afgreiðslu á Alþingi og endurtek enn og aftur að tel ég mjög mikilvægt að þessum málum sé komið á hreint og þetta frumvarp verði að lögum.